Hafa „önnur úrræði“ til að koma fjármunum til Rússlands

Erfitt getur reynst að koma fjármunum til Rússlands þessa stundina …
Erfitt getur reynst að koma fjármunum til Rússlands þessa stundina vegna efnahagsþvingana. mbl.is/Karítas

Ekki ætti að koma til þess að sendiskrifstofu Íslands í Rússlandi verði lokað þrátt fyrir að erfitt eða ómögulegt geti reynst að millifæra fjármuni með hefðbundnum millifærslum til Rússlands.

Þetta kemur fram í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Með efnahagsþvingunum Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Bretlands og fjölmargra annarra ríkja gagnvart Rússlandi, meðal annars með því að útiloka banka landsins frá SWIFT-greiðslukerfinu og með frystingu á reikningum seðlabanka Rússlands erlendis, er orðið mjög erfitt og jafnvel ómögulegt að millifæra fjármuni frá vestrænum ríkjum til Rússlands.

Ísland rekur sendiskrifstofu í Moskvu með átta starfsmenn, þar af þrjá íslenska og miðað við erfiðleika við að koma fjármunum til Rússlands lá mbl.is forvitni á að vita hvernig sendiráðið gæti staðið við að greiða rekstrarkostnað sinn.

Vísað til öryggisástæðna

„Ef rof verður á hefðbundnum leiðum til þess að flytja fjármuni á milli banka með millifærslum hefur utanríkisráðuneytið önnur úrræði til þess að koma rekstrarfé til sendiskrifstofa. Ekki ætti að koma til þess að sendiskrifstofu sé lokað af hálfu Íslands af þessum ástæðum,“ segir í svari ráðuneytisins.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir í samtali við mbl.is að af öryggisástæðum sé ekki hægt að gefa upp hvað felist í öðrum úrræðum. Hann ítrekar hins vegar að rekstrarfé sendiráðsins sé tryggt.

Spurður hvort tekist hafi að greiða öll útgjöld þessi mánaðamót segist hann ekki hafa upplýsingar um annað en að það hafi tekist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert