Köfun í Ölfusvatnsvík verður bönnuð frá og með deginum í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurlandi.
Verður bannið í gildi þar til flaki flugvélarinnar TF-ABB hefur verið náð á land og þau gögn sem þar er að finna verið tryggð.
Fyrir liggur að lögreglu er skylt að rannsaka slys og í þessu tilfelli hvíla ríkar skyldur einnig á Rannsóknarnefnd samgönguslysa um rannsókn. Er bannið sett á til að tryggja að mikilvægum sönnunargögnum verði ekki raskað. Ákvörðun þessi jafngildir því að hald hafi verið lagt á flugvélarflakið á botni Þingvallavatns á grundvelli IX kafla laga um meðferð sakamálalaga nr. 88/2008.
Samkæmt tilkynningu lögreglunnar voru aðstæður við vatnið skoðaðar í dag en sú skoðun leiddi í ljós að vatnið væri ísilagt og ekki að vænta að það opnist á næstunni.
Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um að óviðkomandi hafi reynt að kafa í vatninu en hins vegar er vitneskja um umræðu um slíkt meðal einhverra sem mögulega hafa hvorki þekkingu, búnað eða reynslu til að fást við köfun við jafn krefjandi aðstæður á því dýpi sem hér um ræðir, að því er lögreglan greinir frá.