Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands tók á móti Olgu Dibrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, á Bessastöðum í dag þar sem hún afhenti honum trúnaðarbréf sitt.
Ræddu þau m.a. um innrás Rússlands í Úkraínu, stöðu mála í landinu og framtíðarhorfur ásamt því að forseti lýsti afstöðu íslenskra stjórnvalda, djúpri samúð og samstöðu með Úkraínumönnum.
Tók forseti jafnframt fram að íslensk stjórnvöld fordæmdu árás Rússlands, brot landsins á alþjóðalögum og fullveldi Úkraínu.
Þá nefndi hann einnig að Íslendingar vildu koma íbúum Úkraínu til hjálpar eftir bestu getu og hefði ríkisstjórn Íslands þegar hafið aðgerðir í þá veru.
Sendiherra þakkaði fyrir stuðning og hlýhug Íslendinga.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hitti Dibrova einnig á fundi í Stjórnarráðinu síðdegis í gær.
Í tilkynningu segir að á fundinum hafi forsætisráðherra og sendiherra Úkraínu rætt hið grafalvarlega ástand sem skapast hefur í Úkraínu vegna innrásar Rússa, og að forsætisráðherra hafi sagt íslensk stjórnvöld fordæma innrásina sem sé skýrt brot á alþjóðalögum og alvarlegasta ógn við frið og öryggi í Evrópu um áratugaskeið.
Á fundinum mun forsætisráðherra svo hafa ítrekað stuðning Íslands við Úkraínu og heitið áframhaldandi stuðningi Íslands við efnahagslegar þvinganir gagnvart Rússlandi til að koma á friði.
Ísland hafi þegar ákveðið að veita eina milljón evra, jafnvirði rúmlega 142 milljóna íslenskra króna, til mannúðaraðstoðar í Úkraínu og sé reiðubúið að leggja meira af mörkum, t.d. með móttöku fólks á flótta.