Skemmtanalífið í forgrunni átaks gegn kynferðisofbeldi

Aðstandendur átaksins Er allt í góðu?
Aðstandendur átaksins Er allt í góðu? Ljósmynd/Aðsend

Dómsmálaráðuneytið, ríkislögreglustjóri og Neyðarlínan standa saman að vitundarvakningu gegn kynferðisofbeldi. Fyrsta hluta hennar, þar sem sjónum er beint að skemmtanalífinu, var hrundið af stað með blaðamannafundi á Hótel Borg fyrr í dag. 

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra greindi fyrst frá átakinu í Dagmálum fyrir nokkru. 

„Herferðin hefur verið nokkurn tíma í undirbúningi og var ákveðið að hrinda henni af stað núna, þegar „djammið“ er að komast í fullan gang eftir Covid-takmarkanir. Hinir ýmsu forsvarsmenn skemmtanalífsins komu að undirbúningi herferðarinnar með stjórnvöldum,“ segir í tilkynningu um átakið. 

Þar kemur einnig fram að fjöldi tilkynntra nauðgana dróst saman um 43% þegar samkomutakmarkanir voru sem strangastar. 

„Samkvæmt tölum frá ríkislögreglustjóra á meginþorri tilkynntra nauðgana til lögreglu sér stað um helgar, frá föstudegi til sunnudags og þá sér í lagi frá miðnætti til sex um morguninn.

Árið 2020 voru samkomutakmarkanir í tengslum við Covid-19 sem strangastar og skemmtanalíf því í lágmarki. Þá fækkaði tilkynntum nauðgunum um 43% miðað við meðaltal áranna 2017-2019. Alls voru skráðar 114 nauðganir hjá lögreglunni það ár, en meðaltalið á fyrrnefndu árabili var 201,“ segir í tilkynningunni. Þá fjölgaði tilkynntum nauðgunum á ný í fyrra þegar slakað var á samkomutakmörkunum hluta af árinu 2021 og voru skráðar nauðganir 150 talsins. 

Aðilar í skemmtanalífinu, strætóbílstjórar og aðrir munu því taka höndum saman, vera vakandi og spyrja: Er allt í góðu?



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert