Kærunefnd útboðsmála hefur lagt 9 milljóna stjórnvaldssekt á embætti landlæknis þar sem ekki var farið að lögum um útboð við þróun á hugbúnaðarkerfunum Heilsuveru og Heklu, auk þróunar á fjarfundarbúnaði til notkunar á heilbrigðissviði. Þá þarf embættið einnig að greiða 2 milljónir í málskostnað til fyrirtækisins Köru connect sem kærði kaup embættisins til kærunefndarinnar.
Kara kærði upphaflega kaup embættis landlæknis og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á fjarheilbrigðisþjónustu og þjónustu í tengslum við Sögu sjúkraskrárkerfið, Heilsuveru og Heklu heilbrigðisnet af Origo og Sensa. Vildi Kara að samningar vegna kaupanna yrðu lýstir óvirkir og að kaupendum yrði gert að greiða sekt vegna málsins og bjóða það út á ný.
Fram kemur í úrskurðinum að Kara hafi komist að viðskiptunum í febrúar í fyrra eftir að hafa fengið formlegt svar frá embættinu um kaup þess á lausnum frá Origo. Taldi Kara að viðskiptin væru umfangsmikil og þar sem ekkert útboð hefði farið fram væru þau í andstöðu við lög um opinber innkaup. Í framhaldinu kærði fyrirtækið umrædd innkaup.
Í niðurstöðu kærunefndarinnar kemur farma að samkvæmt lögum um útboð beri að bjóða út öll innkaup opinberra aðila á vörum og þjónustu yfir 15,5 milljónum og ef upphæðin sé yfir 18,1 milljón þurfi að bjóða út á evrópska efnahagssvæðinu.
Segir í úrskurðinum að upplýsingar frá embættinu um greiðslur hefðu ekki verið jafn skýrar og æskilegt hefði verið, en samningar um Heilsuveru náðu aftur til 2013, um Sögu aftur til 2014 og í tilfelli hugbúnaðs fyrir heilsugæslustöðvarnar aftur til ársins 1993. Skilaði embættið upplýsingum um greiðslur til fyrirtækjanna vegna þessara kerfa þrjú ár aftur í tímann.
Kemur meðal annars fram að greiðslur til Origo vegna þeirra kerfa sem ræðir í málinu hafi numið tæplega 1,1 milljarði á þessu tímabili. 255 milljónir féllu til áirð 2018, 400 milljónir árið 2019, 330 milljónir árið 2020 og 114 milljónir á þeim hluta ársins 2021 sem yfirlitið náði til. Barst síðar viðbótaryfirlit sem sýndi heildarkostnað það árið nema 304 milljónum, en það hækkar töluna fyrir fjögur ár upp í 1.290 milljónir.
Er nánar flokkað í úrskurðinum hver kostnaður við hvert og eitt kerfi er, en tekið fram að það sé vel umfram fyrrnefnd mörk um útboðsskyldu. „Virðist samkvæmt þessu mega áætla að innkaup þessi á 48 mánaða tímabili nemi mörg hundruð milljóna króna fyrir hvert kerfi fyrir sig. Telst því virði innkaupanna fara langt yfir viðmiðunarmörk, óháð því hvort horft sé til einstakra kerfa eða þeirra allra í einu,“ segir í úrskurðinum og er auk þess bent á að verðgildi hvers og einstaks samnings við Origo hafi verið yfir viðmiðunarmörkum.
Úrskurðarnefndin kemst svo að þeirri niðurstöðu að varðandi hvort bjóða ætti út innkaup á þróun Sögu sjúkraskrárkerfisins þá hafi Origo átt höfundarrétt og að tæknilegar ástæður stæðu útboði í vegi. Var kröfu Köru um að bjóða ætti út það verk því hafnað. Hins vegar var fallist á að embættið hefði átt að bjóða út innkaup og þróun á hugbúnaðarkerfunum Heklu og Heilsuveru og þróun fjarfundarbúnaðar til notkunar á heilbrigðissviði. „Engar undanþágur frá útboðsskyldu gætu átt við um þau. Um þau hefðu ekki verið gerðir viðhlítandi skriflegir samningar og ekki hefði verið gerð skýrsla um þau,“ segir í úrskurðinum.
Var sem fyrr segir lögð stjórnvaldssekt á embætti Landlæknis upp á 9 milljónir auk þess að þurfa að greiða 2 milljónir í málskostnað til Köru connect. Þá er lagt fyrir embættið að bjóða út þróun hugbúnaðarins Heklu heilbrigðisnets, gerð og þróun hugbúnaðar Heilsuveru fyrir almenning að sækja heilsutengdar upplýsingar í gegnum Heklu heilbrigðisnet og þróun fjarfundarlausnar til notkunar á heilbrigðissviði.