„Ég mun fjalla um það sem er efst á baugi á hverjum tíma. Þættirnir verða ákveðin vikuuppgjör á pólitíkinni,“ segir Páll Magnússon um nýja vikulega Dagmálaþætti hans sem verða sýndir alla laugardaga á mbl.is.
Hver þáttur verður um klukkutíma langur og verður sá fyrsti sýndur 19. mars.
Páll er spenntur að byrja og segist hafa lofað sjálfum sér þegar hann hætti í stjórnmálum í fyrra að taka einungis að sér verkefni sem honum fyndust skemmtileg.
„Ég hlakka til að byrja á þessu og er viss um að þetta geti verið áhugavert og skemmtilegt. Ég er að reyna að standa við það sem ég lofaði sjálfum mér þegar ég hætti í pólitík – að gera bara það sem mér finnst skemmtilegt.“
Þá telur Páll að reynsla hans úr bæði fjölmiðlum og stjórnmálum muni nýtast honum vel á skjánum.
„Að baki býr auðvitað 40 ára reynsla í fjölmiðlum og svo hef ég horft á þetta bæði utan frá og innan frá þar sem ég var alþingismaður í fimm ár. Þessi reynsla skapar góðan grunn til að gera þetta vel.“
Dagmál er hnitmiðaður frétta- og dægurmálaþáttur Morgunblaðsins sem er opinn áskrifendum.