Sungu úkraínskt þjóðlag við rússneska sendiráðið

Fjöldi mótmælenda var mættur með sönginn að vopni fyrir utan rússneska sendiráðið við Garðastræti í miðborg Reykjavíkur í morgun til að sýna samstöðu með Úkraínumönnum í stríðinu við Rússa. 

Atvinnusöngvarar jafnt sem aðrir fjölmenntu á viðburðinn og mátti víða sjá skærgulan og himinbláan klæðnað til marks um stuðning þeirra við Úkraínu. Þá mættu einhverjir með skilti sem sýndu óvægin skilaboð sem beindust að Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Mótmælendur vönduðu Pútín ekki kveðjurnar.
Mótmælendur vönduðu Pútín ekki kveðjurnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrst og fremst samstöðuafl

Sönghóparnir Cantoque Ensemble og Sönghátíð í Hafnarborg stóðu að baki samstöðusöngnum sem hófst fyrir utan rússneska sendiherrabústaðinn við Túngötu rétt fyrir klukkan níu í morgun, áður en hann færðist að sendiráðinu sem stendur við Garðastræti.

Að sögn Hallveigar Rúnarsdóttur, stofnanda Cantoque Ensemble, voru mótmælin afar friðsæl enda voru þau fyrst og fremst hugsuð sem samstöðuafl. Hún segir mætinguna hafa verið vonum framar og áætlar hún að um tvö til þrjú hundruð manns hafi látið sjá sig. 

Hún segir söng ofsalega mikilvægt vopn til mótmæla sem hefur verið notað víða um heiminn, til að mynda í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna til að skapa samstöðu og samhljóm meðal almennings. 

Hallvegi segir mikla samstöðu að finna í söngnum enda hafi …
Hallvegi segir mikla samstöðu að finna í söngnum enda hafi hann víða verið notaður í mótmælum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sungu hjartfólgna sálma

Alls voru fjögur lög sungin annars vegar fyrir framan sendiherrabústaðinn og hinsvegar fyrir framan sendiráðið.

Fyrstu tvö lögin voru „Heyr himnasmiður“ og „Til þín drottinn hnatta“ og heima eftir Þorkel Sigurbjörnsson, sem Hallveig segir hafa passað afar vel við tilefnið enda báðir hjartfólgnir sálmar. Þá var einnig úkraínska þjóðlagið „Hljóðnar nú haustblær“ í útsetningu Magnúsar Ragnarssonar flutt en það var sungið víða í messum síðustu helgi.

„Svo ákváðum við að enda á Maístjörnunni því það er sameiningarlag Íslendinga.“

Spurð hvort hún telji að söngvurunum hafi tekist að koma skilaboðunum áleiðis til þeirra sem inni sátu, kveðst Hallveig vera nokkuð viss um það.

„Ég held að fólk sé allavega með ansi slæma heyrn ef það heyrði ekki í 300 manns þannig við verðum bara að vona það.“

Skipuleggjendur telja hátt í 300 manns hafa mætt til að …
Skipuleggjendur telja hátt í 300 manns hafa mætt til að sýna samstöðu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert