Það er jákvætt að til standi að greiða leið flóttamanna frá Úkraínu til Íslands en betri væri ef þeir fengju stöðu flóttamanna í stað dvalarleyfis af mannúðarástæðum.
Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurð út í aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna móttöku úkraínskra flóttamanna.
Aðgerðirnar fela í sér að fólkið sem hingað kemur fær dvalarleyfi af mannúðarástæðum, fyrst til eins árs en hægt verður að framlengja það í þrjú ár. Eftir það geta tekið við varanlegri leyfi. Aðgerðahópur ráðuneyta með aðkomu flóttamannanefndar og sveitarfélaga verður jafnframt settur á fót.
„Við hefðum raunar viljað sjá mannúð sem þessa í verki gagnvart öðrum stríðsátökum eins og í Sýrlandi, Afganistan og Írak en burtséð frá því er mjög jákvætt að við ætlum að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu. Það er gott að sjá að verið er að efna til mikillar skipulagsvinnu til að hægt sé að taka vel á móti þeim,” segir Þórhildur Sunna.
Hún setur þó spurningamerki við virkjun dómsmálaráðherra á 44. grein útlendingalaga varðandi fjöldaflótta. Lagt sé til að veita fólkinu mannúðarleyfi þegar það eigi í raun rétt á betri réttarvernd, eða stöðu flóttamanna. Sú staða feli til að mynda í sér lengra dvalar- og atvinnuleyfi með tilheyrandi öryggi.
„Þess vegna er vert að spyrja hvers vegna ekki er farin sú leið að veita fólki í raun bestu vernd sem völ er á og það á rétt á,” greinir hún frá.
„Það er athugunarvert að gefa þeim bara eitt ár í mannúðarleyfi með möguleika á endurnýjun. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemdir við svona stutt leyfi því þau vinna gegn markmiðum um aðlögun og að flóttamenn upplifi öryggi og skjól.”
Þórhildur Sunna segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar ágætis byrjun en veltir því fyrir sér hvort þær séu einungis til hægðarauka fyrir Útlendingastofnun en ekki endilega fyrir flóttafólkið sem um ræðir.
„Auðvitað er þetta jákvætt skref en betur má ef duga skal.”