Gríðarleg breyting á nokkrum sólarhringum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að lokun Atlantshafsbandalagsins á lofthelgi Úkraínu fæli í sér beina íhlutun bandalagsins í átökum þar í landi.

Úkraína hefur óskað eftir því að bandalagið skipi fyrir um loftferðabann yfir úkraínskri lofthelgi. Þórdís Kolbrún sat neyðarfund aðildarríkja NATO í Brussel í dag.

„NATO er varnarbandalag og er ekki þátttakandi í því stríði sem nú hefur brotist út. Ef framfylgja ætti loftferðabanni myndi það geta leitt til enn frekari stigmögnunar og ógnað öryggi í Evrópu,” segir Þórdís Kolbrún í samtali við mbl.is.

Rætt um aðgerðir einstakra ríkja á neyðarfundi NATO

Um ákall stjórnvalda í Úkraínu eftir loftferðabanni segir ráðherrann:

„Þetta ákall hefur komið frá Úkraínu í að minnsta kosti nokkra daga og verður háværara eftir því sem staðan verður alvarlegri, með hverri klukkustund sem líður þar í landi.“

Á fundi Atlantshafsbandalagsins var að sögn Þórdísar lögð rík áhersla á að viðhalda þeirri miklu samstöðu sem ríki innan bandalagsins.

„Samstaðan skiptir máli. Farið var yfir ákvarðanir og aðgerðir einstakra ríkja til stuðnings úkraínsku þjóðarinnar, hvar þurfi að gefa í,“ segir Þórdís Kolbrún. Bandalagsríki hafi bætt og muni bæta talsvert í framlög til varnarmála vegna breyttrar stöðu.

Skilur áhyggjur þjóðarleiðtoga í nágrenninu

Ríkisborgarar annarra þjóða, til dæmis Tékklands sem á aðild að NATO, hafa lagt leið sína til Úkraínu til þess að berjast við hlið heimamanna gegn Rússum. 

Er farið að bera meira á áhyggjum ráðamanna?

„Við finnum vel fyrir því að, eðlilega, hafa leiðtogar þessara ríkja áhyggjur af því hver atburðarásin er orðin og hver hún verður. Við sjáum dag frá degi afskaplega alvarlegar, þungar og sársaukafullar fréttir og alvarlega stöðu í Úkraínu. Stríðið er einfaldlega mjög nálægt ríkjum Atlantshafsbandalagsins og okkar nágrönnum, eins og Finnlandi og Svíþjóð, sem vinna mjög náið og ennþá nánar nú með bandalaginu,” segir Þórdís Kolbrún.

„Það er þungt yfir öllum. Það hefur orðið gríðarleg breyting á öllu okkar umhverfi á nokkrum sólarhringum, breytingar sem ekki sér fyrir endann á og mun hafa gríðarleg áhrif á öryggis- og varnarmál í Evrópu, þar með talið á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert