Hafa ekki hugmynd um hve margir koma

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar og formaður flóttamannanefndar, segir ekki …
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar og formaður flóttamannanefndar, segir ekki einfalt að taka við úkraínskum flóttamönnum enda óvitað hve margir koma. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við erum komin með eitthvað af húsnæði en erum að biðla til sveitarfélaganna að koma með okkur í þetta verkefni,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður flóttamannanefndar, spurður hver sé staða skipulagningar móttöku úkraínskra flóttamanna.

Vegna virkjunar 44. greinar útlendingalaga, sem mun heimila ótakmörkuðum fjölda úkraínskra flóttamanna að dvelja og starfa á Íslandi í allt að þrjú ár, var fundað í flóttamanannefnd í dag.

„Verkefni nefndarinnar er að tryggja þessu fólki húsnæði og semja við sveitarfélögin um þá þjónustu sem þau munu þurfa. Og svo skipuleggja þessa móttöku og allt sem að henni snýr sem er svolítið flókið og öðruvísi. Hingað til höfum við verið með skilgreinda hópa en þessi hópur er óskilgreindur og við höfum ekki hugmynd um hvað við erum að fara að taka á móti mörgum,“ útskýrir Stefán Vagn.

Vilyrði fyrir nokkrum tugum íbúða

Hann segir nokkur sveitarfélög hafa boðist til að taka þátt í verkefninu en meira þarf ef duga skal. „Við erum komin með vilyrði fyrir nokkrum tugum íbúða nú þegar og sá fjöldi fer vaxandi. En ég ítreka það sem ég hef sagt áður að þetta er ekki gerlegt nema fleiri sveitarfélög en þau hér á höfuðborgarsvæðinu – þessi þrjú stærstu sem hafa borið hitann og þungann af þessu – komi að þessu. Annars verður þetta verkefni gríðarlega erfitt.“

Nefndin gerir ráð fyrir að tilhögun móttöku flóttamannanna verði með sambærilegu sniði og verið hefur í gegnum samninga við sveitarfélögin. „Fólk fer ekki til sveitarfélaga sem treystir sér ekki til að taka á móti þeim. Þess vegna ítreka ég það að við verðum að fá breiðan hóp sveitarfélaga inn í verkefnið til að dreifa álaginu,“ segir Stefán Vagn og bætir við að til standi að senda til sveitarfélaganna bréf þar sem beiðni um þátttöku sé ítrekuð. „Ég hef væntingar og vonir  til þess að þetta fari að skýrast í næstu viku.“

Auk sveitarfélaga hafa einakaðilar hafa lýst sig reiðubúna til að leggja til verkefnisins húsnæði.

Spurður hvað verði gert ef fleiri koma en húsnæði er fyrir svarar Stefán Vagn: „Við þurfum þá að leita annarra lausna hvort sem það er með fjöldahjálparstöðvum eða leigja hótel með sambærilegum hætti og var gert með sóttvarnarhótelin. Við verðum bara að leysa þetta og það eru allir meðvitaðir um að sú staða getur komið upp. Hins vegar höfum við séð það að stór hluti þeirra sem þegar eru komnir gista hjá vinum og ættingjum. Þetta virðist dreifast.“

Þá sé ekki annað í stöðunni en að leita lausna. „Við þurfum bara að leita allra leiða til að grafa upp það húsnæði sem hægt er að finna í þetta þannig að við getum tekið á móti þessu fólki. […] Ég veit að það er mikill velvilji hjá sveitarfélögunum hringinn í kringum landið. Þau eru orðin mörg sem hafa lýst sig reiðubúin til að koma inn í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert