Andri Sigurðsson, hönnuður og félagi í Sósíalistaflokknum sem sér einnig um bloggið Jæja, segir að allir reikningar fyrir vinnu sem hann vann í þágu Eflingar, og fékk 20 milljónir greitt fyrir, hafi verið samþykktir af starfsmönnum Eflingar og þeim hafi fylgt ítarlegar tímaskýrslur.
„Magnað að á meðan stríð er að brjótast út í Evrópu taka fréttamiðlar sér tíma til að dreifa áróðri gegn mér og Viðari Þorsteinssyni. Þessi drullumokstur er aðeins enn einn liðurinn í baráttunni um framtíð Eflingar,“ skrifar Andri í færslu á Facebook.
Segist Andri hafa unnið að nýrri vefsíðu fyrir félagið auk fjölda annarra verkefna yfir tímabil sem spannaði þrjú ár, en Fréttablaðið greindi frá því að Andri hefði aldrei klárað vefsíðuna heldur notið aðstoðar utanaðkomandi fyrirtækis til þess að ljúka verkinu.
Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, segir laun Andra hafa verið í samræmi við vinnu sem hann innti af hendi.
„Vissulega eru yfir tuttugu milljónir mikill peningur og þetta er yfir þriggja ára tímabil sem er í samræmi við umbeðna vinnu. Ég á bágt með að skilja hvernig hægt er að gera það tortryggilegt,“ segir Viðar í samtali við mbl.is.
Segir hann Andra hafa unnið verkefnin samkvæmt beiðnum starfsfólks og stjórnenda hjá þróunar- og kynningarsviði.
Í færslu á Facebook segist Andri stoltur af þeirri vinnu og þeim verkefnum sem hann hefur komið að fyrir Eflingu en þar nefnir hann einnig að fráfarandi formaður félagsins hafi „hótað að gera mál úr þessu“ í fjölmiðlum, kvöldið áður en úrslit síðustu kosninga lágu fyrir.