Lækjartorg mun taka stakkaskiptum á næstu árum og samkvæmt vinningstillögu í hönnunarsamkeppni um Lækjartorg og aðliggjandi rými mun hringlótt opið manvirki rísa a torginu miðju.
Tillagan bar heitið Borgaralind eftir Sp(r)int Studio og Karrens en Brands.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra veitti verðlaunahöfum viðurkenningar ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra á fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun um samgöngumál í Reykjavík.
Reykjavíkurborg og Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) efndu til hönnunarsamkeppninnar árið 2021 og var auglýst eftir tillögum sem hefðu rými fyrir fólk að leiðarljósi í hönnun. Samkeppnin var hönnunarsamkeppni með forvali og var í tveimur þrepum. Markmið samkeppninnar var að fá fram frjóar og áhugaverðar hugmyndir um hönnun Lækjartorgs og nærliggjandi gatna.
Samkeppnissvæðið náði yfir Lækjartorg, Lækjargötu frá Hverfisgötu að Austurstræti, Austurstræti frá Lækjargötu að Ingólfstorgi og Bankastræti frá Þingholtsstræti að Austurstræti.
Í umsögn dómnefndar segir að tillagan „uppfylli flestar áherslur samkeppnislýsingarinnar og gefi torginu og aðliggjandi gatnarýmum nýja vídd og nýtt og spennandi hlutverk í hjarta borgarinnar“.
Enn fremur segir í áliti dómnefndar: „Heildaryfirbragð tillögunnar nær á sannfærandi hátt að tengja saman Stjórnarráðið, Lækjartorg og Bankastræti sem þjónað er af meginæð Borgarlínu sem kemur til með að liggja eftir Lækjargötu.“
Nafnið Borgaralind vísar til mannlífsins. „Á endanum fjallar þetta um fólkið og það er fólkið sem gerir borgina,“ Karl Kvaran, sem kynnti tillöguna fyrir hönd teymis síns, en lindarhluti nafnsins vísar til lækjarins og leiðir enn fremur hugann að því skemmtilega mannlífi sem myndast í kringum heitu pottana í borginni.
Stefnt er að því að semja við höfunda tillagna um endanlega útfærslu forhönnunar. Nýtt deiliskipulag, ef þess gerist þörf, verður unnið í samræmi við vinningstillöguna.