Orkustofnun bendir sérstaklega á mikilvægi heildstæðrar stefnu í vindorkumálum, til dæmis á lands- og sveitarstjórnastigi, í umsögn um lagafrumvarp á Alþingi. Þar yrði fjallað um afmörkuð svæði með tilliti til heimilda til vindorkunýtingar. Slík stefna þyrfti einnig að ná til þess ef margir smærri aðilar, svo sem landeigendur og sumarbústaðaeigendur, sækjast eftir að koma upp vindmyllum á eigin landi.
Orkustofnun telur að með tilkomu „hreinorkupakka“ Evrópusambandsins og mögulegri upptöku hans á Evrópska efnahagssvæðinu séu minni og stærri aðilar hvattir til nýtingar á endurnýjanlegri orku. Það sé líklegt til að auka áhuga til vindorkunýtingar hér á landi, jafnt á stærri sem smærri mælikvarða, og gerð verði enn háværari krafa um skýrt og skilvirkt ferli slíkrar nýtingar.
Vindorka er hagkvæmur kostur til öflunar endurnýjanlegrar orku, að mati Orkustofnunar, vegna lækkandi framleiðsluverðs á búnaði og að mörgu leyti hagstæðra veðuraðstæðna á Íslandi. Orkustofnun leggur í þessu sambandi áherslu á mikilvægi þess að skapa heildstæða umgjörð um nýtingu vindorku á Íslandi.
Umhverfisáhrif vindorkuvera geta verið töluverð og lítil reynsla er komin hér á landi við byggingu slíkra orkuvera, að því er Orkustofnun skrifar. Einnig er bent á að það geti verið gott fyrir raforkukerfið að slík nýting blandist núverandi endurnýjanlegri orkunýtingu á landsvísu. Þar er væntanlega átt við hagkvæmt samspil vatnsaflsvirkjana með miðlun og vindorkuvera.