Umboðsmaður Alþingis segir ákvörðun Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar, um tímabundna setningu ráðuneytisstjóra til þriggja mánaða án undangenginnar auglýsingar ekki vera í samræmi við lög. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns sem birt var á vefsíðu embættisins í dag.
Er það álit umboðsmanns að aðrar leiðir hefðu verið færar til að ekki væri gengið gegn ákvæðum laga um réttindi og skyldu starfsmanna ríkisins.
„Þegar fyrirætlun stjórnvalda um að koma hinu nýja ráðuneyti á fót hafi legið fyrir hefði ráðherra borið að grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja starfsemi þess við stofnun. Ef ekki hefði verið nægur tími til að auglýsa embættið og ljúka skipunarferli áður en ráðuneytið tæki formlega til starfa hefðu verið færar leiðir að lögum til bráðabirgðaráðstafana. Ólögfest sjónarmið um skyldur stjórnvalda til tafarlausra viðbragða við þessar aðstæður gætu ekki réttlætt ákvörðun ráðherra um tímabundna setningu ráðuneytisstjóra án auglýsingar með vísan til þeirra sjónarmiða sem ráðuneytið byggði á,“ segir í áliti umboðsmanns.
Áslaug setti Ásdísi Höllu Bragadóttur í embætti ráðuneytisstjóra, en það var sett á laggirnar sem nýtt ráðuneyti í kjölfar endurnýjaðs ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna.
Embættið var auglýst laust til umsóknar í byrjun síðasta mánaðar og rann umsóknarfrestur út í lok febrúar. Átta umsóknir bárust um embættið, þar á meðal frá Ásdísi.
Áréttar umboðsmaður í álitinu mikilvægi þess að stjórnvöld fylgi lagareglum sem gilda um veitingu opinberra starfa og embætta og virði þau markmið sem þeim sé ætlað að þjóna. Tekið er fram að ekki séu líkur á að dómstólar myndu meta setningu ráðuneytisstjórans ógilda og að embættið hafi nú verið auglýst en mælist engu að síður til þess að ráðuneytið taki framvegis mið af sjónarmiðunum í álitinu.