56 úkraínskir flóttamenn komnir til landsins

Úkraínskir borgarar á flótta undan stríðsátökum.
Úkraínskir borgarar á flótta undan stríðsátökum. AFP

Síðastliðinn sólarhring komu alls þrettán flóttamenn frá Úkraínu en frá 24. febrúar hefur verið tekið á móti 56 flóttamönnum frá Úkraínu. Þar af eru 28 þeirra konur, 11 karlmenn og 17 börn.

Þetta staðfestir Jón Pétur Jónsson, sviðsstjóri landa­mæra­sviðs rík­is­lög­reglu­stjóra, í samtali við mbl.is.

Margir úkraínsku flóttamannanna eiga tengsl við landið og hafa um tveir þriðju þeirra sem hingað eru komnir fengið húsaskjól frá vinum og ættingjum, að sögn Jóns Péturs.

Hann segir þó ekki alla eiga tengsl við ættingja og vini hér á landi og hefur því útlendingastofnun komið hinum til aðstoðar hvað varðar húsaskjól.

Til skoðunar að færa viðbragðsáætlun á hættustig

Jón Pétur segir álag á móttökukerfið á Íslandi vegna komu einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd vera komið að þolmörkum. Frá áramótum hafa samtals 294 einstaklingar af 19 þjóðernum sótt um vernd hér á landi.

Viðbragðsáætlun vegna yfirálags á landamærum hefur verið virkjuð og er á óvissustigi. Hann segir það vera til skoðunar að færa áætlunina á hættustig.

Flóttamenn í biðröð á lestarstöð í úkraínsku borginni Lviv á …
Flóttamenn í biðröð á lestarstöð í úkraínsku borginni Lviv á leiðinni til Póllands. AFP

„Nú þegar hafa margir aðkomu að þessari viðbragðsáætlun og alltaf þegar við virkjum viðbragðsáætlanir erum við í rauninni að tryggja það að það sé fylgst vel með ástandinu og verið að greiða fyrir upplýsingaskipti þarna á milli þá hagaðila,“ segir Jón Pétur.

„Menn eru svona að fara yfir það með hvaða hætti hægt er að standa að næsta viðbragði, ef að áætlunin fer á hærra viðbúnaðarstig.“

Hann segir að ef farið verði á hærra viðbúnaðarstig verði skoðað hvort mögulega reynist nauðsynlegt að virkja fjöldahjálparstöðvar.

Áskorun fyrir allar þjóðir, þar á meðal Ísland

„Við erum náttúrulega kannski með þessa nýju áskorun, að taka á móti fólki á flótta frá stríðsátaka svæðum. Fyrir það vorum við með mikið álag á móttökukerfinu, eins og við köllum það,“ segir Jón Pétur og bætir við að finna þurfi leiðir til að takast á við þessa nýju áskorun.

Mik­ill mann­fjöldi mætti við rúss­neska sendi­herra­bú­staðinn til að mót­mæla inn­rás …
Mik­ill mann­fjöldi mætti við rúss­neska sendi­herra­bú­staðinn til að mót­mæla inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. mbl.is/Óttar Geirsson

Að hans sögn sé verið að reyna að bregðast við með því að samþætta og auka samvinnu þeirra aðila sem koma að verkefninu en að það sé einnig samfélagslegt og fólkið í landinu þurfi því einnig með einhverjum hætti að hjálpa til.

„Þetta eru fordæmalausir tímar og þetta er ein birtingarmyndin sem er náttúrulega bara áskorun fyrir allar þjóðir og við þar á meðal.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert