Björn Snæbjörnsson ætlar að hætta sem formaður Starfsgreinasambandsins (SGS) á 8. þingi þess sem haldið verður í Hofi á Akureyri dagana 23.-25. mars. Þar verður kosið til formanns, varaformanns og í framkvæmdastjórn SGS.
„Ég tilkynnti um þetta í vor innan okkar raða,“ sagði Björn í samtali við Morgunblaðið. „Ég er orðinn 69 ára og búinn að vera formaður í tólf ár. Það er kominn tími til að láta einhverjum öðrum þetta eftir.“ Hann kvaðst ætla að ljúka kjörtímabili sínu sem formaður stéttarfélagsins Einingar-Iðju en því lýkur vorið 2023. En hvernig metur Björn stöðuna nú þegar hann stígur upp úr sæti formanns SGS?
„Fram undan eru kjarasamningar sem geta orðið mjög erfiðir. Mér finnst vera meiri ófriður innan verkalýðshreyfingarinnar en oft hefur verið. Það vekur mér ákveðinn ugg,“ sagði Björn.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness (VLFA), tilkynnti um framboð sitt til formanns SGS á heimasíðu VLFA þann 2. mars. Hann sagði að hópur formanna innan SGS og fulltrúa sem munu sitja þingið hafi skorað á hann að bjóða sig fram til formennsku.