Landsmenn bjóði fram lítið notað húsnæði

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/Sigurður Bogi

„Sveitarstjórnarmönnum, eins og öllum landsmönnum, rennur til rifja sá hryllingur sem þarna er að eiga sér stað og við erum öll til í að aðstoða fólkið eins og hægt er. Margir spyrja sig: Hvað get ég gert?“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði. Hún var spurð að því hvort sveitarfélögin væru í stakk búin til að taka við fjölda flóttafólks frá Úkraínu.

Aldís segir í því sambandi að ríkisstjórnin haldi utan um málefni flóttamanna, meðal annars hversu margir koma og hvernig staðið er að málum. Hún bendir jafnframt á þá staðreynd að íbúar Úkraínu geti komið hingað og dvalið hér í þrjá mánuði sem ferðamenn. Viðbúið sé að margir komi á þeim forsendum til ættingja og vina.

„Auðvitað verða sveitarfélögin líka að stíga inn og taka þátt í þessu risastóra verkefni enda erum við öll skuldbundin til þess af mannúðarástæðum,“ segir Aldís í samtali við Morgunblaðið í dag og segir að sveitarfélögin séu tilbúin að taka þetta samtal við ríkið þegar óskað verður eftir.

Vantar húsnæði

Spurð hvort húsnæðisekla takmarki ekki möguleikana á að taka við fjölda flóttamanna segir Aldís að svo kunni að vera enda vanti þúsundir íbúða inn á fasteignamarkaðinn nú þegar. Ýmis úrræði séu þó til. Segir hún að oft sé húsnæði illa eða ekki nýtt sem nota mætti tímabundið í þetta verkefni. Nefnir orlofshús og orlofsíbúðir sem dæmi, bæði utan þéttbýlis og innan.

„Mig langar að koma með ákall til Íslendinga, þeirra sem ráða yfir eða vita um húsnæði sem ekki er í notkun eða eru tilbúnir að sleppa því að nýta húsnæði tímabundið, að láta sína sveitarstjórn eða skrifstofu sveitarfélagsins vita,“ segir Aldís.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert