Hnífstunguárás í miðbænum

Málið er í rannsókn að sögn lögreglu.
Málið er í rannsókn að sögn lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður var stunginn með eggvopni fyrir utan veitingastað í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags, að því er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfestir við mbl.is.

Var maðurinn færður á slysadeild og hefur enginn verið handtekinn að sögn lögreglu en málið er í rannsókn. 

Móðir mannsins greinir frá því í færslu á Facebook að tveir menn hafi stungið manninn sex sinnum í bakið og hann fengið gat á lungað. Honum hafi vart verið hugað líf en hann sé úr lífshættu eftir að hafa rambað á sjúkrabíl og komist á spítala.

Segir móðirin frá því að enga hjálp hafi verið að fá frá dyravörðum á staðnum né vegfarendum og biðlar hún til þeirra sem urðu vitni að árásinni að gefa sig fram við lögregluna.

Nokkur erill var hjá lögreglunni um helgina og voru í nótt um 80 mál skráð í dagbók lögreglu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert