Birna Halldórsdóttir er nýkomin heim úr morgunsundi, eldhress. Hún býður blaðamanni til sætis í eldhúsinu og hellir upp á sterkt og gott kaffi. Birna segist vera litrík; hún þoli ekki að hafa allt í svarthvítu og ber íbúðin þess glöggt merki. Fáir mála veggi sína gula og bleika, en það gerði Birna einmitt. Hún fer sannarlega sínar eigin leiðir og er hvergi nærri hætt að vinna og njóta lífsins, komin á áttræðisaldur. Það er greinilega enginn aldur ef maður hefur góða heilsu og lífsgleðina að vopni.
„Ég sá auglýsingu frá Rauða krossinum þar sem þeir auglýstu námskeið fyrir sendifulltrúa. Ég sló til og sótti um og komst inn,“ segir Birna og segist ekkert hafa átt von á því að vera send út því á þessum tíma voru sendifulltrúar aðallega heilbrigðisstarfsfólk.
„Ég var enn í vinnu hjá Norræna húsinu og fylgdist bara með úr fjarska. Síðan var það árið 1989 að ég skrepp í frí til útlanda, en þá voru engir farsímar. Þá akkúrat var hringt því það vantaði manneskju til að fara til Armeníu eftir mikla jarðskjálfta þar,“ segir Birna og segist hafa verið spæld að missa af tækifærinu.
„En mánuði síðar er aftur hringt og ég beðin að fara til Keníu daginn eftir vegna átaka í Suður-Súdan,“ segir Birna og segist hafa fengið leyfi hjá vinnuveitandanum en verkefnið var hugsað til sex mánaða.
„Það var handagangur í öskjunni en ég fór svo, ekki alveg daginn eftir en fljótlega,“ segir Birna og segist hafa endað í Norður-Keníu við landamærin við Suður-Súdan þar sem Rauði krossinn rak spítala.
„Þarna unnu nokkrir íslenskir hjúkrunarfræðingar og ég stjórnaði flutningi hjálpargagna inn í Suður-Súdan,“ segir Birna og segir auðvitað skrítið að vera einn daginn heima að vinna í Norræna húsinu en næsta dag í villtri náttúru Keníu að stjórna og stýra hjálparstarfi.
„Það er undir manni sjálfum komið hvernig maður tekst á við verkefnið, en það að stjórna og skipuleggja er eins, sama hvar maður er. Það gekk allt miklu hægar þarna, það tók tíma að kynnast aðstæðum og ég þurfti oft að bíta mig í tunguna því það sem tók mig tvo tíma heima gat tekið tvær vikur þarna.“
Vel gekk hjá Birnu í nýja sendifulltrúastarfinu, enda er ljóst að hún hefur aðlögunarhæfni á við kameljón. Hún var sjö mánuði í Keníu og segist hafa lært ýmislegt, meðal annars þolinmæði.
„Þegar ég kom heim var mikið að gera við að selja ferðir hjá Norræna félaginu og mér fannst fólk frekt, ágengt og fúlt! Ég hugsaði með mér að það ætti að senda alla Íslendinga í einn eða tvo mánuði til Afríku og þá myndu þeir brosa allan hringinn,“ segir hún.
„Fólkið sem ég kynntist í Afríku var svo jákvætt og þakklátt. Fólk spurði mig hvort ég hefði orðið fyrir menningarsjokki að fara þarna út en ég svaraði: „Nei, menningarsjokkið var þegar ég kom til baka!““ segir Birna.
„Ég var komin með bakteríuna,“ segir hún og á við ferðabakteríuna, en stuttu síðar flutti hún til Finnlands til að læra finnsku.
„Ég fór þar í lýðháskóla og hélt að ég myndi bara læra finnskuna, en þarna var svo margt annað skemmtilegt að læra. Ég fór í ljósmyndun og ýmislegt fleira og finnskan sat á hakanum,“ segir Birna en eftir heimkomuna vann hún um stund í finnska sendiráðinu. Birna stoppaði þó ekki lengi við á Íslandi því kallið kom frá Rauða krossinum og áður en hún vissi af var hún á leið til Sómalíu þar sem stríðið var í algleymingi.
„Þarna voru stríðsherrar og ættbálkastríð en svo komu Bandaríkjamenn og ætluðu að stilla til friðar á viku. En þá sneru þessir ættbálkar bökum saman á móti utanaðkomandi afli, sem eðlilegt er,“ segir hún og segist hafa notað þessa reynslu í ritgerð í mannfræðinámi sem hún fór síðar í.
Rétt áður en Birna lauk við bakkalárritgerð sína skall mannskæð flóðbylgja á Indónesíu, á annan í jólum 2004, eins og margir muna.
„Þá gaf ég kost á mér og fór til Indónesíu í janúar 2005. Það var erfiðasta reynsla sem ég hef upplifað í hjálparstarfi. Á Norður-Súmötru dóu 150.000 manns,“ segir Birna en þess má geta að fórnarlömbin voru í heild 228.000 í einum mannskæðustu náttúruhamförum sögunnar.
„Þetta var hræðilegt; það var allt farið. Hús voru farin af grunni og stærðar skip voru uppi á þurru landi. Það höfðu allir orðið fyrir einhverjum áföllum. Sumir sem voru að vinna fyrir okkur höfðu misst alla sína fjölskyldu. Þegar ég tala um þetta finn ég nályktina. Það voru enn á floti lík og sjálfboðaliðar voru í því að taka líkin úr vatninu, setja í poka og flytja í fjöldagrafir. Nályktin var rosaleg í loftinu. Það voru líkstaflar meðfram veginum,“ segir Birna og segir fólkið þarna hafa verið svo æðrulaust.
Aðspurð hvar hún hafi gist segir hún þau hafa gist þrjátíu saman í húsi.
„Ég fékk jafn mikið pláss og dýnan mín tók. Þarna sváfum við öll í sama rými og þvílíkur hrotukór!“ segir hún og hlær.
Birna sá að hún yrði að hafa eitthvað fyrir stafni þegar starfinu lauk hjá Rauða krossinum og kláraði hún því nám í leiðsögn.
„Ég fór þá að leiðsegja og hef verið að því síðan. Ég ætlaði alltaf að taka meirapróf en hafði aldrei tíma fyrr en ég ákvað að gera það loksins þegar ég varð sjötug, því ég þurfti hvort sem er að skipta um ökuskírteini,“ segir Birna og segist vera með próf á 58 manna rútu.
„Og ég fékk bara eina athugasemd,“ segir hún og hlær.
„Ég læt ekkert aldurinn stoppa mig, það þýðir ekki neitt,“ segir Birna og tekur fram að hún keyri nú ekki stærri rútu en tuttugu manna, og þá ekki yfir hávetur.
„Ég fer í alls kyns ferðir; norðurljósaferðir og Gullna hringinn og það er gott að vera með möguleikann að geta keyrt rútuna sjálf,“ segir hún og segist taka nógu margar ferðir til að eiga fyrir salti í grautinn, án þess að keyra sig út.
Það er aldrei dauð stund hjá Birnu og ef of lítið býðst að vinna skráir hún sig á ýmiss konar námskeið. Í dag er hún áhugaleikkona og stofnaði með öðrum áhugaleikurum leikhópinn X.
„Eftir hrun, á milli ferðanna til Haítí, var ég atvinnulaus og þá skráði ég mig á rosalega skemmtileg námskeið hjá Hlutverkasetrinu, meðal annars leiklistarnámskeið. Við vorum nokkur sem vildum halda áfram eftir námskeiðið og stofnuðum leikhópinn X og vorum tíu í upphafi en erum nú fimm. Við gerðum sketsa og sendum út á facebooksíðunni okkar og youtube og Steindi og Gaukur Úlfarsson sáu sketsana og réðu okkur til að leika í myndinni Þorsta, sem er vampírumynd. Við lékum aðalhlutverkin en þekktir leikarar voru í minni hlutverkum. Við vorum því sex í aðalhlutverkum,“ segir Birna, sem lék alkóhólista og pillufíkil í kvikmyndinni Þorsta sem er frá 2019. Einnig hefur hópurinn leikið í auglýsingum og áramótaskaupum.
„Síðan þá erum við búin að gera eina „goth“-stuttmynd sem hefur farið á hátíðir erlendis. Hún heitir The Goth gang,“ segir Birna og upplýsir að fleira spennandi sé í pípunum.
„Þekkt breskt sjónvarpsfyrirtæki hafði samband og vantaði leikhóp til að gera fimm mínútna langan þátt. Ég hélt fyrst að þetta væri gabb en svo var ekki og við slógum til. Þetta eru víkingaþættir frá ýmsum stöðum og vildu þeir ráða áhugaleikhópa til að leika senurnar. Okkar sena er um Auði djúpúðgu. Við erum að fara í gang með þetta og byrjum á Akranesi þar sem við vitum um gamlan bát sem við höfum áhuga á að nota í einni senunni,“ segir Birna og segir þau þurfa að gera þrjár senur.
„Við búum til senurnar eftir sögunni sem við fáum, og sjáum sjálf um alla búninga og dýr, en við ætlum að hafa landnámshænur, hund og kött í bátnum,“ segir hún og skellihlær.
Fáið þið eitthvað borgað?
„Nei, svona fimmtíu þúsund kall.“
Á mann?
„Nei, í heildina,“ segir hún og hlær.
„Okkur er alveg sama. Við erum að gera þetta skemmtunarinnar vegna.“
Heimsfrægðin bíður kannski handan við hornið?
„Segðu! Tja, alla vega fáum við fimm mínútna frægð.“
Ítarlegt viðtal er við ævintýrakonuna Birnu Halldórsdóttur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.