Ræða við Airport Fjallabyggð um flugvallarsvæði

Flugvöllurinn á Siglufirði.
Flugvöllurinn á Siglufirði. Ljósmyndari/Örlygur Kristfinnsson

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt tillögu starfshóps um að bæjarstjóra verði falið að hefja formlegar viðræður við þá sem standa að baki hugmyndinni Airport Fjallabyggð um framtíðaruppbyggingu á flugvallarsvæðinu á Siglufirði.

Minnisblað starfshópsins var lagt fram 28. febrúar þar sem farið var yfir þær þrjár hugmyndir sem bárust um uppbygginguna. Þar er tillaga Airport Fjallabyggðar sögð viðamikil og ítarleg. Gert er ráð fyrir blandaðri starfsemi tengdri ferðaþjónustu með útibaðsvæði við sjóinn, veitingasölu fyrir ólíka markhópa, enduruppbyggingu flugvallaraðstöðu fyrir létta flugumferð og uppbyggingu gistireksturs af hóflegum skala, að því er segir í fundargerð.

„Tillagan mætir vel þeim hugmyndum sem lagt var upp með í upphafi og kynntar voru, að byggja skuli upp atvinnustarfsemi á svæðinu og ná fram markmiðum um nýtingu fasteigna sveitarfélagsins á svæðinu. Ennfremur er að finna upplýsingar um fjármögnun, verk og tímaáætlanir,” segir í umsókn starfshópsins um tillöguna.

Fram kemur að nái áformin fram að ganga sé um að ræða sannfærandi tillögu um þróun varanlegrar starfsemi á flugvallarsvæðinu.

„Af þeim tillögum sem bárust er það mat starfshópsins að tillagan mæti best þeim forsendum og óskum sem sveitarfélagið óskað eftir að lagðar yrðu til grundvallar í hugmyndavinnu um framtíðarþróun flugvallarsvæðisins á Siglufirði.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert