Vill fá að vita hverjir réðust á son hennar

Alda segir að sonur hennar sé heilbrigður og heilsteyptur strákur …
Alda segir að sonur hennar sé heilbrigður og heilsteyptur strákur með sterka réttlætiskennd. Samsett mynd

Móðir ungs manns sem lenti í þeirri skelfilegu reynslu á aðfaranótt laugardags að ráðist var á hann og hann stunginn sex sinnum óskar eftir því að fólk gefi sig fram við lögregluna ef það hefur einhverjar upplýsingar um málið. Árásarmennirnir eru ófundnir. 

Móðirin, Alda Lárusdóttir, segir að sonur hennar sé heilbrigður og heilsteyptur strákur með sterka réttlætiskennd. Líkamsárásin sem hann varð fyrir hafi verið hrottaleg. 

„Þeir króuðu hann af, létu höggin dynja á honum, tóku svo upp vopn og stungu barnið mitt 6 sinnum í bakið og gerðu gat á lunga,“ skrifar Alda í færslu á Facebook sem hún gaf mbl.is leyfi til þess að vinna frétt upp úr. 

Enginn hafi rétt út hjálparhönd

Syni hennar var vart hugað líf til þess að byrja með en nú liggur hann á spítala og er komin úr lífshættu. 

„Það sem hann gerði sér til saka að þeirra mati var að hann reyndi að stoppa þá þar sem þeir voru að níðast á öðrum strák,“ skrifar Alda um árásarmennina. „Þeim fannst það næg ástæða að taka upp vopn og gera tilraun til manndráps.“

Atvikið átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn 203 Club í miðbæ Reykjavíkur og segir Alda að enginn hafi rétt syni hennar hjálparhönd.

„Hann rambaði sjálfur á sjúkrabíl þar sem hann fékk hjálp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert