Gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum á þrítugsaldri vegna árásar í Grafarholti í febrúar þar sem skotið var á karl og konu hefur verið framlengt.
Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Gæsluvarðhaldið átti að renna út síðastliðinn föstudag.
Spurður segir hann rannsókn málsins í fullum gangi en getur ekkert sagt til um hvort tengsl séu á milli árásarinnar og annarrar skotárásar í miðbæ Reykjavíkur skömmu síðar.
Annar maðurinn var handtekinn í húsnæði við Miklubraut morguninn eftir skotárásina í Grafarholti þar sem lögregla og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með mikinn viðbúnað. Hinn maðurinn var handtekinn eftir hádegi sama dag. Lagt var hald á ökutæki og skotvopn, sem lögreglan telur að hafi verið notuð við verknaðinn.