Fjármagnar aðgerðina með málverkum eftir sig

Samsett mynd

Hafdís Houmøller Einarsdóttir greindist með legslímuflakk eða endómetríósu árið 2016, þá 18 ára gömul. Hún hefur glímt við sjúkdóminn frá barnsaldri og er nú loks, 24 ára gömul, á leið í aðgerð sem hún þarf alfarið að fjármagna sjálf.

Hún var stödd í Leeds í Englandi þar sem hún var að útskrifast úr listnámi þegar hún fer að finna fyrir auknum verkjum af völdum sjúkdómsins. Heima á Íslandi tók þá við löng bið eftir læknatíma.

„Í júlí á síðasta ári byrja ég að hringja í lækninn minn sem var einu sinni í viku á Domus medica. Ég þurfti þá að hringja klukkan níu á hverjum einasta miðvikudegi og vonast til að fá tíma,“ segir Hafdís.

Fékk ekki aðstoð á spítalanum

Hún lýsir hræðilegri reynslu af því þegar hún var það kvalin að hún þurfti á sjúkrabíl að halda.

„Ég fór svo með sjúkrabíl uppá sjúkrahús og þar var mér bara ýtt til hliðar í tvo klukkutíma, þá var Covid í gangi og ég gat bara farið ein inn. Þar var ég sett í herbergi þar sem ég var skilin eftir í tvo klukkutíma, enginn sagði neitt við mig, ég vissi ekki hvar klósettið væri, ég vissi ekki hvernig ég ætti að kalla á hjálp og ég fékk ekki neina verkjastillingu.“

Eftir að hafa beðið á spítalanum ákvað Hafdís að fara heim án þess að tala við lækni, þar sem hún var sárkvalin og þurfti á verkjalyfjum að halda.

Í desember á síðasta ári fer Hafdís til annars læknis sem segir henni að hún þurfi á aðgerð að halda, hún kosti þó um 700 þúsund krónur og sé ekki niðurgreidd af ríkinu.

Ástæðuna segir Hafdís vera að vegna Covid-19 faraldursins  hafi Landspítalinn frestað fjölmörgum aðgerðum og eru aðgerðir við legslímuflakki af skornum skammti. Því hafi hún þurft að leita annað.

Fékk hugmyndina að verkunum á heimleið eftir læknistíma

Hafdís segist vera lánsöm að geta málað og selt málverk til þess að fjármagna aðgerðina. Það séu alls ekki allar konur, sem margar hverjar geta varla unnið sökum sjúkdómsins.

„Ég var að reyna að finna einhverja seríu sem myndi virka fyrir alla og ég var að keyra heim frá lækni þegar ég sá Keili með skýjahnoðra fyrir ofan sig. Þá vissi ég bara nákvæmlega hvað ég væri að fara að gera.“

Hún segir fjölmarga hafa sýnt áhuga á verkunum og að það gangi vel að selja. Hún sé komin langt á leið með að fjármagna aðgerðina.

Þurfi opnari umræðu um sjúkdóminn

Að sögn Hafdísar þarf opnari umræðu um legslímuflakk og mun meiri fræðslu í skólum. Það geti til dæmis reynst erfitt fyrir unga leghafa að vita hvort túrverkir sem þau finni fyrir séu eðlilegir eða hvort um sé að ræða legslímuflakk.

„Mér finnst eiginlega meiri skilningur oft hjá karlmönnum, af því að sumar konur upplifa túrverki en þær upplifa kannski milda túrverki og geta farið í gegnum daginn,“ segir Hafdís og bætir við að hún hefur verið spurð af kvenfólki hvort hún þurfi ekki bara á verkjalyfjum að halda þegar hún hefur verið mjög veik.

„Vá mér datt ekki í hug að taka Íbúfen og Paratabs,“ segir Hafdís og hlær.

Hún segir sjúkdóminn oft vera feimnismál, líkt og almenn umræða um túrverki sé oft á tíðum einnig. Hún hafi þó alltaf talað opinskátt um sjúkdóminn frá ungum aldri og útskýrt fyrir fólki hvernig hann væri.

„Svo spyr maður sig ef þetta væri sjúkdómur sem að karlmenn væru með, þá væri örugglega opnari umræða um þetta og mjög líklega miklu fleiri læknar. Þetta er ömurlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert