Illa farið með 10 milljarðana sem fóru í skimanir

Kostnaður ríkissjóðs við Covid-skimanir frá febrúar 2020 fram í desember …
Kostnaður ríkissjóðs við Covid-skimanir frá febrúar 2020 fram í desember 2021 nemur tæpum 10 milljörðum mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins kveðst hræddur um að ekki hafi verið farið vel með þá fjármuni sem teknir voru úr ríkissjóði vegna Covid-skimana. Hann telur 10 milljarða kostnað verkefnisins vera langt um fram það sem bæði hann og almenningur hafi átt von á. 

Í svari Willums Þór Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bergþórs kemur fram að frá því í febrúar 2020 og fram í desember 2021 hafi heildarkostnaður ríkissjóðs við skimanir vegna Covid-19 numið alls 9.227.332.740 krónum.

Kostnaður vegna almennra PCR-skimana innanlands var mestur eða 5.361.253.085 kr. Þar á eftir kom landamæraskimun en kostnaður af henni var 2.291.672.579 kr. Þá var kostnaðurinn af hraðprófum 1.011.158.257 kr. Annar kostnaður var 563.248.801 kr.

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokssins.
Bergþór Ólason þingmaður Miðflokssins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarlega há upphæð

„10 milljarðar er gríðarlega há upphæð í hvaða samhengi sem er en sérstaklega í þessu ljósi þykir mér,“ segir Bergþór í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við svari heilbrigðisráðherra. 

Hann segir kostnaðinn hafa komið sér verulega á óvart og veltir því upp hvort að of hátt hafi verið reitt til höggs að standa í jafn umfangsmiklu skimunum á síðustu mánuðum eins og raun ber vitni. Telur hann líklegt að upphæðin sé nú að nálgast 11 milljarða ef kostnaður við skimanir í janúar og febrúar á þessu ári er tekinn með í reikninginn.

Vildi breytingar í ágúst

Í síðasta mánuði var almennri PCR-skimun hætt og er almenningur nú í flestum tilfellum sendur í hraðpróf ef grunur leikur á um kórónuveirusmit. Spurður hvort hann þyki þessi breyting koma of seint – sérstaklega nú þegar kostnaður vegna skimana liggur fyrir, svarar Bergþór því játandi.

„Í ágúst í fyrra þá taldi ég tilefni til að menn færu að fikra sig til þess horfs að lifa með veirunni. En það tók nú þó nokkra mánuði til viðbótar fyrir sóttvarnayfirvöld og heilbrigðisráðherra að komast að þeirri niðurstöðu að það væri skynsamlegt.“

Kostur að búið sé að aflétta

Þá segir hann efnahagslegt tjón vegna sóttvarnaaðgerða gríðarlega mikið innan samfélagsins enda hafi stjórnvöld verið lengi að stíga skrefið til baka eftir strangar samkomutakmarkanir.

Þá kveðst hann ekki vera með svar við því hvort hann telji tímabært að afnema skimun með öllu.

„Ég held að hver og einn verði að meta það fyrir sig en ég held að það sé kostur að það sé búið að aflétta öllum takmörkunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert