Mjög alvarlegt ef lög hafa verið brotin

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, þriðji varaforseti ASÍ.
Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, þriðji varaforseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Formanni stéttarfélagsins Bárunnar og þriðja varaforseta ASÍ er brugðið vegna nýlegra frétta af fjármálum Eflingar og segir að ef niðurstaðan þar innanhúss verður sú að um fjárdrátt hafi verið að ræða þurfi félagið að kalla til félagsfundar.

Gerð nýrrar vefsíðu Eflingar og mikill kostnaður vegna hennar upp á rúmar 20 milljónir króna hafa sætt ámæli. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar hefur vísað á bug að eitthvað gruggugt hafi verið á ferðinni, sem og vefarinn Andri Sigurðsson.

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar og þriðji varaforseti ASÍ, segir meginregluna vera að félög leysi sín mál innanhúss og að niðurstaða liggi ekki fyrir í þessu máli.

„En ástandið er mjög sérstakt og miklar árásir [hafa verið] á fólk frá þessu fólki, þannig að auðvitað líst manni ekki á hvernig búið er að skapa einhvern fjölmiðlaágreining þar sem menn hafa kannski ekki verið gagnrýnir á suma en aðallega aðra,“ segir Halldóra Sigríður og bætir við að ásökunin núna varðandi fjármálin sé mjög alvarleg.

„Ef fólk hefur eitthvað fyrir sér í þessu, eða ef niðurstaðan verður að það er fjárdráttur hlýtur fólk að hugsa það og kalla til félagsfundar og fara yfir þau mál innan félagsins.“

Viðar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Viðar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjaldan séð jafn ljótar árásir

Spurð segir hún ASÍ ætla að bíða og sjá hvað kemur út úr rannsókn málsins innan Eflingar „Ef það er verið að brjóta lög er það mjög alvarlegur hlutur. Það eru búnar að vera ansi miklar árásir á starfsfólk þarna innanhúss og ástandið bara mjög sérstakt. Ég hef sjaldan séð jafn ljótar árásir á starfsmenn stéttarfélaga og í þessu máli. Ég styð starfsmennina að fullu og það getur ekki verið að 50 til 60 manns séu svona ofboðslega ómögulegir,“ bætir Halldóra við um þær væringar sem hafa verið innan Eflingar undanfarið.

Hún ítrekar að félög eigi að leysa sín mál innanhúss en að félagsmenn sem vinni fyrir réttlæti alla daga geti ekki horft framhjá því ef ásökun um fjármálamisferli reynist rétt.

Spurð segir hún engin fundarhöld vera framundan hjá ASÍ út af málinu, að minnsta kosti ekki enn sem komið er, en tekur fram að henni sé brugðið við þessar fréttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert