Selja landa um allt land

Jósef Krýsl og Helgi Sigurðsson.
Jósef Krýsl og Helgi Sigurðsson.

Í áraraðir hafa Íslendingar stundað landabrugg í heimahúsum og tíðkaðist það víða úti á landi þar sem langt gat verið í næstu vínbúð. Nú má finna Landa í sölu í öllum vínbúðum landsins.

Landinn er bruggaður af KHB brugghúsi sem staðsett er á Borgarfirði eystri. Helgi Sigurðsson, eigandi KHB brugghúss, segir viðtökurnar hafa verið vonum framar og vel hafi gengið að selja Landann.

„Við erum á Borgarfirði eystri og það hefur tíðkast mikil landamenning á þessu svæði. Menn hafa verið að brugga sitt eigið, en náttúrlega ekkert farið hátt með það.“

„Þannig það var okkar hugmynd að fá uppskriftina frá einum elsta og þekktasta bruggaranum og gera þetta aftur í nútímalegum og fullkomnum eimingartækjum.“

„Ná upp gamla þjóðararðinum,“ segir Helgi.

Landa frá Borgarfirði eystri má finna í öllum Vínbúðum landsins.
Landa frá Borgarfirði eystri má finna í öllum Vínbúðum landsins.

Marga hryllir við tilhugsunina

Aðspurður segir Helgi að grunnurinn á landanum sé sá sami og menn hafi ávallt notað og það sé það sem einkenni íslenska landann. 

„Landinn hefur ekkert gott orð á sér, margir hafa smakkað þetta og hryllir við tilhugsuninni að drekka þetta.“

„Maður þarf að smakka hann, þetta er ekki eins og gamli landinn. Hann er virkilega góður,“ segir Helgi.

Hann segir þó að landinn sem þeir framleiða sé skráður undir vodka í vínbúðinni þar sem framleiðslan sé í raun eins.

Bjór frá KHB brugghúsi.
Bjór frá KHB brugghúsi.

Menn drukku gambrann

Helgi rifjar það upp fyrir blaðamanni þegar menn voru að brugga landa hér áður fyrr þá hafi stundum tíðkast að drekka gambrann sjálfan.

„Oft voru menn að flýta sér mikið og drukku gambrann sjálfan. Hann gat náð svona 12-14%. Þá var hann látinn í tunnu og látinn malla og gerjast. Við erum með gömlu góðu síldarplasttunnurnar sem gambrinn er að malla,“ segir Helgi.

„Landabrugg var mikið stundað á Borgarfirði, Jökuldal og fleiri svæðum. Eins held ég að Skagfirðingar hafi verið þekktir fyrir þetta. Þá gátu einstakir aðilar verið færir og búið til góðan landa en það voru kannski ekki margir.“

Ginmarkaðurinn erfiðari

KHB brugghús er einnig að framleiða gin og bjór sem má finna í Vínbúðum. Helgi segir ginið hafa fengið fínar viðtökur en að ginmarkaðurinn sé aðeins erfiðari markaður en landamarkaðurinn. Einnig er brugghúsið að þróa kaffilíkjör.

„Við byggjum þetta á tékkneskum brugghefðum, þeir eru þekktir fyrir að brugga bjór og við leituðum þangað. Við fengum Tékka til þess að koma og setja upp tækin og kenna okkur á þetta.“

Helgi rekur einnig gistiheimilið Blábjörg á Borgarfirði Eystri ásamt eiginkonu og segir að áfengi bruggað í brugghúsinu hafi selst vel á veitingastaðnum þeirra. Einnig verður opnuð ölstofa í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka