Sjö ára fangelsi fyrir sérlega grófa nauðgun

Landsréttur þyngdi refsingu yfir karlmanni í sjö ára fangelsi.
Landsréttur þyngdi refsingu yfir karlmanni í sjö ára fangelsi. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur þyngdi á föstudag refsingu yfir karlmanni í sjö ár fyrir nauðgun og stórfellt brot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður.

Í árásinni, sem átti sér stað í september 2020 og stóð yfir í marga klukkutíma, ógnaði karlmaðurinn alvarlega heilsu og velferð konunnar, að því er fram kemur í dómi Landsréttar.

„[S]vo sérstaklega sársaukafullt og meiðandi telst, þegar hann þvingaði hana ítrekað til samræðis, endaþarmsmaka og munnmaka með ofbeldi og nauðgun yfir um átta klukkustunda tímabili.“

Meðan á árásinni stóð sló karlmaðurinn barnsmóður sína, tók hana hálstaki og þrengdi að öndunarvegi hennar svo hún missti meðvitund, reif í hár hennar og kleip hana. Hætti hann ekki þrátt fyrir að barnsmóðir hans grátbæði hann um að stöðva.

Greindist með áfallastreituröskun á háu stigi

Konan leitaði á neyðarmóttöku klukkan 18:45 föstudaginn 18. september 2020. Í gögnum málsin kom fram að hún hafi hniprað sig saman, verið kalt og með svima og ógleði. Hún var hrædd og átti erfitt með að sitja vegna óþæginda, verkja og eymsla í grindarbotni/ytri kynfærum/endaþarmi. 

Konan var með marbletti á hálsi, framhandlegg, aftanverðu læri, sköflungi og við endaþarm. Hár var reytt og tætingslegt og hárflygsur losnuðu við kembingu. Hún fann fyrir miklum eymslum í allri hryggjarsúlu og fann fyrir bruna eða leiðniverk niður í hægri útlim.

„Um tilfinningalegt ástand er þess getið að hún hafi verið í losti, fjarræn, eirðarlaus, frásögn hennari hafi verið samhengislaus, hún fengið grátköst, verið óttaslegin, lítið munað, verið með hroll, köfnunartilfinningu, hjartslátt og skjálfta,“ segir í dómnum.

Þá segir einnig í dómnum að konan hafi greinst með áfallastreituröskun á háu stigi. Áfallastreituröskun hafði áður verið til staðar, meðal annars vegna fyrri ofbeldisbrota barnsföður, en einkennin sem nú væru til staðar væru mun alvarlegri og meira hamlandi í daglegu lífi.

Engar málsbætur

Í maí á síðasta ári hafði Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmt karlmanninn í fimm ára fangelsi og til að greiða fjórar milljónir í miskabætur. Ríkissaksóknari áfrýjaði dómnum í júní 2021 þar sem þess var krafist að refsingin yrði þyngd og að miskabætur yrðu hækkaðar í fimm milljónir króna auk vaxta.

Karlmaðurinn sagði áverka brotaþola hafi hlotist af harkalegu kynlífi sem konan hafi veitt samþykki sitt fyrir. Framburður hans var talinn einkar ótrúverðugur. Háttsemi hans var talin sérstaklega gróf og ófyrirleitin og atlaga hans langvinn, og var því fangelsisdómurinn þyngdur um tvö ár. 

Ákvæði dóms hérðasdóms um miskabætur og sakarkostnað var staðfest og karlmanninum jafnframt gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, sem nemur 1.883.807 krónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert