Útilokar ekki breytingar á loftrýmisgæslu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra útilokar ekki að einhverjar breytingar verði gerðar á loftrýmisgæslu á Íslandi í ljósi breyttrar heimsmyndar vegna stríðsins í Úkraínu.

Hún segir þörf á viðverandi loftrýmisgæslu ekki hafa verið tekin til formlegrar umræðu en henni þykir líklegt að endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi verði rætt.

Flugherinn fer í lok mánaðar

Frá því að bandaríkjaher fór árið 2006 hefur loftrýmisgæsla verið viðhöfð fjórum til þrisvar sinnum á ári hér á landi. Portúgalski flugherinn hefur annast loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins (NATO) undanfarinn mánuð en mun ljúka starfi sínu í lok mars. Samkvæmt núverandi áætlun mun næsti flugher taka við í sumar.

„Það að varnaráætlanir NATO, allar fimm, hafi verið virkjaðar felur í sér möguleika á aukinni viðverðu þannig að loftrýmisgæsla er eitt af því sem getur komið til umræðu. En það hafa engar ákvarðanir verið teknar um breytingar á því fyrirkomulagi sem hefur verið um árabil,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.

Listinn ekki verið staðfestur

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að Ísland væri komið á lista Rússa yfir óvinveittar þjóðir, eða lista yfir „er­lend ríki og landsvæði sem fremja óvin­veitt­ar aðgerðir gegn Rússlandi, fyr­ir­tækj­um þess og borg­ur­um“.

Aðspurð segir Þórdís ráðuneytið ekki hafa fengið staðfestingu þess efnis að Ísland væri á listanum. Aftur á móti hafi þau lesið um það í fjölmiðlum og segir hún Ísland í ágætum félagsskap á listanum, séu þar meðal annars Norðurlandaþjóðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert