Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og sérfræðingur í varnar- og öryggismálum, segir enga beina stríðsógn vofa yfir Íslandi og ólíklegt að það gerist nema þriðja heimsstyrjöldin brytist út. Hann telur tal um fasta viðveru varnarliðs hér á landi óþarfa og mögulega óþarflega.
Þetta kemur fram í pistli, sem Albert birtir á vefsíðu um alþjóðamál, en tilefnið ábendingar Baldurs Þórhallssonar stjórnmálafræðiprófessors um að hér á landi þurfi varnarlið til trúverðugrar fælingar.
Albert bendir á að lítið hafi breyst á Keflavíkurflugvelli frá upphafi Úkraínustríðsins, enda hyggist Bandaríkin ekki hafa hernaðarleg afskipti af því. Enn síður ráðgeri ríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) hernaðaraðgerðir á norðurslóðum.
Albert fagnar umræðu um öryggismál, en ítrekar að forsendurnar þurfi að vera réttar. Tal um að stríðið þar veki sérstaka ógn á Íslandi, sem kalli á viðbrögð, kunni að valda óþarfa áhyggjum.
„Ísland er augljóslega ekki nágrannaland Rússlands og íslensk öryggismál eru ekki á neinum tímamótum vegna Úkraínustríðsins.“
Baldur er þó ekki einn um að velta landvörnum og hlutverki varnarliðs fyrir sér. Á laugardag efndi Varðberg, félag áhugamanna um vestræna samvinnu, til NATO-skóla í Háskólanum í Reykjavík, en þar flutti Geir Ove Øby, undirofursti í norska hernum og fulltrúi herstjórnar NATO á Íslandi, eitt erindanna. Þar fór hann yfir nauðsyn landvarna og benti m.a. á viðauka í varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 2006, sem ætlað var að treysta varnirnar þótt hér væri ekki herlið til varna.
Af þeim sökum þyrftu Íslendingar að vera reiðubúnir til þess að bregðast sjálfir við aðsteðjandi ógn á hættutímum þar til unnt væri að senda herlið hingað. Þar undir kynni að falla upplýsingaöflun, netaðgerðir, minniháttar árásir eða hryðjuverkastarfsemi.
Ef senda þyrfti herlið til Íslands ylti ljóslega mikið á því að mikilvæg aðstaða eins og flugvellir, hafnir og lendingarstaðir væri ekki í óvinahöndum. Þar kynnu Íslendingar að þurfa að taka til sinna ráða með eigin varnarviðbúnaði og öryggisgæslu, svo landið væri ekki berskjaldað uns aðstoð bandamanna í NATO bærist.