Hafa fengið vilyrði fyrir húsnæði

Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri móttöku flóttamanna frá Úkraínu, segir í …
Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri móttöku flóttamanna frá Úkraínu, segir í samtali við mbl.is að staðan sé þung hjá Útlendingastofnun. Þar kemur aðgerðarteymið inn í. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðgerðarteymi móttöku flóttafólks frá Úkraínu hefur fengið vilyrði fyrir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem og á landsbyggðinni. Þetta segir Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri teymisins.

„Staðan er orðin gífurlega erfið hjá Útlendingastofnun, margir á leið til landsins hvaðanæva að,“ segir hann en teymið mun vinna í málum Úkraínumanna, sem fá fjöldavernd á grundvelli útlendingalaga.

„Það þarf að útvega fólki húsnæði og sinna ýmsum grunnþörfum sem við erum núna að tryggja að verði til staðar,“ segir hann. Unnið verður í samvinnu við sveitarfélögin að koma því í kring en vilyrði hefur fengist fyrir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni líkt og áður sagði. 

Fjöldi fólks frá Úkraínu hefur haldið út í óvissuna vegna …
Fjöldi fólks frá Úkraínu hefur haldið út í óvissuna vegna innrásar Rússa í heimalandið. AFP

Fyrrum sóttvarnahús komið til Útlendingastofnunar

„Það eru ýmis félagasamtök og hjálparstofnanir sem eru að safna peningum. Þar sem við erum eingöngu að horfa á grunnþarfir verður ekki óskað eftir leikföngum eða slíku, eða að fólk sé að taka til í geymslum til að finna eitthvað sem nýtist,“ segir Gylfi enda færi mikill tími í utanumhald um slíkt. 

Útlendingastofnun hefur nú umráð yfir einu af þeim húsum sem áður var farsóttarhús en aðspurður segir Gylfi húsið ekki vera notað við móttöku flóttafólksins frá Úkraínu. Miklar annir eru hjá Útlendingastofnun um þessar mundir en 320 manns hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi það sem af er ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert