Ekki er öll von úti um að Íslendingar nái settum loftslagsmarkmiðum þrátt fyrir að staða í orkumálum sé slæm núna. Mikil tækifæri eru fólgin í þeim orkuskiptum sem eru framundan og hafa Íslendingar „góða reynslu af því að verða græn.“ Er það áfram markmið okkar að vera leiðandi þjóð í loftslagsmálum.
Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við mbl.is að lokinni kynningu á skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum sem fór fram í Hörpu fyrr í dag.
Starfshópurinn sem stóð að baki skýrslunnar var skipaður þeim Vilhjálmi Egilssyni hagfræðingi, Ara Trausta Guðmundssyni jarðeðlisfræðingi og Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hjá Samtökum Iðnaðarins.
Í skýrslunni eru settar fram sex sviðsmyndir um raforkuþörf landsins til næstu tveggja til fjögurra áratuga, þar af fjórar sem taka mið af loftslagsmarkmiðum Íslands. Þær spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040.
Guðlaugur Þór segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart. Slæm staða orkumála hafi verið ein af ástæðum þess að honum þótti mikilvægt að koma á fót starfshópi hæfra einstaklinga úr ólíkum áttum sem myndu taka þessar upplýsingar saman – þannig öllum yrði ljóst hvaða verkefni væru framundan.
Hann segir Ísland þó hafa góða reynslu af þeim orkuskiptum sem við höfum nú þegar ráðist í, rafvæðingu og hitaveituvæðingu, og að horft sé til Íslands í þeim málum.
„Það hefur ekki komið sót úr skorsteini í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu í nær hundrað ár. Það var ekki þannig áður. Það er vegna þess að við ákváðum á sínum tíma að fara í græn orkuskipti og við höfum sérstöðu þegar kemur að þessum málum í heiminum. En það eru stór verkefni framundan og það er enginn vafi að verkefnin eru spennandi og tækifærin sömuleiðis sem fylgja þeim.“
Er forgangsatriði núna að efla flutnings- og dreifikerfi raforku eða virkja meira?
„Það þarf að gera þetta allt til þess að ná settum markmiðum.“
Eitt af því sem fram kom í kynningu starfshópsins var að ekki væri fyrir hendi almenn samstaða um helstu áherslur í náttúruvernd og aðra umhverfistengda þætti þegar kemur að orkuframkvæmdum hér á landi.
Spurður hvernig hægt sé að skapa meiri samstöðu svo hægt sé að ná árangri og uppfylla sett markmið, segir Guðlaugur að nú þegar sé breið pólitísk samstaða til staðar um markmiðin. Aftur á móti séu margar leiðir að markinu og það sé undir fleirum en einum komið að ná sátt um hvaða leið skuli fara.
„Ég held hins vegar að það séu miklu meiri líkur á að það komist á sátt þegar fólk er að tala um þetta út frá eins góðum upplýsingum eins og mögulegt er. Þess vegna réðumst við í gerð þessarar skýrslu.“
Þá segir Guðlaugur hörmungar síðustu vikna í Evrópu undirstrika enn frekar þá staðreynd að orkumál séu einnig þjóðaröryggismál.
„Ef við værum sjálfstæð í orkumálum þá væri það mjög eftirsóknarvert meðal annars út af þjóðaröryggismálum.“
Er enn raunhæft að Ísland nái markmiðum sínum er varða loftslagsmál?
„Við Íslendingar höfum ráðist í stærri verkefni en þetta. En við skulum ekki vanmeta verkefnið. Alls ekki. En auðvitað getum við gert það ef við sameinumst um að gera það. Þá náum við því, það er enginn vafi,“ segir Guðlaugur.
„En hins vegar þurfum við að hætta að tala um hvert við ætlum og einbeita okkur að því hvernig við ætlum að komast þangað. Það er stóra málið,“ bætir hann við.
Hann segir nú mikla vinnu framundan, sem felst ekki einungis í því að búa til græna orku heldur sömuleiðis að nýta hana eins vel og hægt er.