Slæmt að stóla á rússneska orku

Diljá segir mikilvægt að ráðast í orkuskiptin og kortleggja framboð …
Diljá segir mikilvægt að ráðast í orkuskiptin og kortleggja framboð og eftirspurn raforku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á þingfundi í dag mikilvægt að Ísland sé ekki háð rússneskri orku og því sé mikilvægt að hraða orkuskiptum. 

Greint var frá því fyrr í dag að rúss­nesk yf­ir­völd hafi hótað að skrúfa fyr­ir helstu flutn­ings­leiðir gass til Þýska­lands ef Vest­ur­lönd taka sig til og banna kaup á rúss­neskri olíu. 

Ákall eftir bættu orkuöryggi í öllum landshlutum

„Skelfileg atburðarrás síðastliðinna daga hefur líka opnað augu Íslendinga og Evrópubúa í orkumálum og [fólk sér] hversu hættulegt það er að Evrópa sé svo háð rússneskri orku. Það er lífsnauðsynlegt að snúa af þeirri braut,“ sagði Diljá.

Ákall er úr öllum landshlutum eftir aukinni orku og bættu orkuöryggi að því er fram kemur í skýrslu umhverfisráðherra um stöðu og áskoranir í orkumálum, sem út kom í dag og Diljá vakti máls á.

„Og þótt Ísland sé í algerri sérstöðu þegar kemur að orkumálum hlýtur þessi staða að verða okkur hvatning til þess að hraða orkuskiptunum,“ sagði Diljá og bætti við að tímabært sé að skýra stöðu varðandi framboð og eftirspurn raforku og ráðast í orkuskiptin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert