Aðeins seldust um 40% framboðinna skinna á fyrsta degi mars-uppboðs hjá finnska uppboðshúsinu Saga Furs. Þykir þetta lélegt, þar sem ávallt er stefnt að sölu á öllum framboðnum skinnum, þótt hlutfallið sé til muna hærra en var á nýlegu uppboði í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir að eftirspurnin sé ekki meiri var verðið svipað og meðalverð síðasta árs.
Uppboðið í Finnlandi er fyrsta uppboðið þar á skinnum sem framleidd voru á síðasta ári og jafnframt fyrsta uppboð á íslenskum minkaskinnum en íslenskir loðdýrabændur hafa nú samið við finnska uppboðshúsið um sölu á öllum þeirra skinnum eftir langt samstarf við danska uppboðshúsið Kopenhagen Fur.
Á fyrsta degi uppboðsins, sem aðeins fer fram á netinu, voru aðallega seld hvít skinn. Í gærkvöldi stóð til að selja brún skinn en þau ráða miklu um heildarniðurstöðuna.
Enn hefur kórónuveirufaraldurinn áhrif á sölu skinna en enn eru miklar takmarkanir í gildi í Kína vegna hans. „Þegar maður hélt að faraldurinn væri að ganga yfir tók stríðið í Úkraínu við. Öll viðskipti með vörur á heimsmarkaði truflast við slíka atburði,“ segir Einar Eðvald Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda. Hann bætir því við að Rússar séu annar stærsti kaupandi skinna í heiminum, á eftir Kínverjum, og sá markaður muni væntanlega lokast í bili.
Níu loðdýrabændur eru eftir í landinu en þeim fækkaði mjög í nýlegri kreppu á skinnamarkaðnum. Verðið hækkaði mjög á síðasta ári. Segir Einar að þótt það sé erfitt fyrir þá ef skinnin seljast ekki telji hann að flestir ætli að taka slaginn út þetta ár.
Fulltrúi frá Saga Furs sem kom á búgreinafund hjá loðdýrabændum taldi að ástandið myndi lagast þegar kæmi fram á árið og áhrif kórónuveirufaraldursins væru liðin hjá – og salan yrði komin í lag um mitt ár. Hann hafði þó fyrirvara um áhrif stríðsins í Úkraínu.