Augljóst er af þeim sviðsmyndum um orkuskipti sem finna má í nýrri skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum að þörf er á aukinni orkuframleiðslu á Íslandi til að mæta þeim. Það er síðan samfélagsins að ákveða hversu langt og hratt skal ganga í þeim efnum.
Það er jafnframt flókið mál að bæta við virkjunum mjög hratt á næstu 18 árum, miðað við markmið stjórnvalda um að hætta að nota jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040 í stað fyrra markmiðs um árið 2050.
Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson, fyrrverandi þingmaður VG og hluti af starfshópi sem ráðherra skipaði, spurður út í skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum sem var kynnt í gær. Þar kemur m.a. fram að orkuöryggi kallar á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi.
Sömuleiðis kemur fram að ekki er fyrir hendi almenn samstaða um helstu áherslur í náttúruvernd og aðra umhverfistengda þætti þegar kemur að orkuframkvæmdum hér á landi.
Spurður hvort hann sé fylgjandi því að ráðast í mikið af virkjunum veltir Ari Trausti fyrir sér á móti hvar Íslendingar vilji setja markið í orkuskiptunum.
Ef fara skal í full orkuskipti þegar kemur að öllum farar- og vinnutækjum, hvort sem er á lofti, láði eða legi, þarf að framleiða rafmagn fyrir rafhlöður og til að búa til rafeldsneyti og lífeldsneyti, segir hann og bætir við að tækjaþróun og notkun rafeldsneytis sé komin stutt á veg í heiminum en margs konar tækni þó vel þekkt. Einnig vaxi grænn iðnaður, sem er inni í ýtrustu orkueftirspurnartölum.
Sem dæmi nefnir hann að ef millilandaflug á að vera alveg grænt þarf að framleiða mikið af rafeldsneyti í flugvélakostinn. Til þess gæti þurft u.þ.b. 1.000 megavött, ef ekki á að flytja það inn, eða vel ríflega það sem framleitt er í Fljótsdalsvirkjun.
Ari Trausti kveðst fylgjandi því að fara í full orkuskipti en það þýði að framleiða þurfi meira rafmagn. Hægt sé að nálgast markmiðið með því að spara raforku, auka nýtni, en einnig með tæknibreytingum á núverandi virkjunum, notfæra tímabundið og aukið rennsli jökulvatna, bæta flutningskerfið en um leið að fjölga orkuverum af ýmsum gerðum.
Inntur eftir því hvort stjórnvöld hafi farið fram úr sér með því að flýta markmiðum um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 í stað 2050 segir hann ekkert endilega álitlegast að flýta markmiðunum eins og gert var. „Það er rosalegur munur á 18 og 28 árum, upp á þróun í eldsneytistækni og notkun að gera og til að geta betur ákvarðað hlutföllin af vatnsafli, jarðvarma og vindi til orkuskiptanna,“ greinir hann frá.
„Að undirbúa þær virkjanir er tímafrekt og stundum sagt að frá hugmynd að stórri virkjun að gangsetningu líði fimm til tíu ár,“ segir hann og telur þörf á að setja fram raunhæf markmið þegar kemur að því að bæta við virkjunum miðað við sjálfbæra orkustefnu og loftslagsmarkmiðin.
„Ég hef mínar efasemdir um að þetta viðmið, 2040, sé raunhæfast en mér finnst allt í lagi að setja það fram engu að síður vegna þess að þú getur alltaf bakkað og endurskoðað aðgerðaráætlanir.“
Spurður um hvers konar virkjanir séu skynsamlegastar hér á landi í framtíðinni nefnir Ari Trausti „bland í poka“ af þremur virkjanagerðum, þ.e. vatnsaflsvirkjunum, jarðvarmavirkjunum og vindorkuverum. Auk þess komi sjávarfallsvirkjanir til greina. Tvær slíkar séu á teikniborðinu fyrir vestan.
„Allt kemur til greina. Aðalmálið er að það sé til heildrænt skipulag og ljós markmið.“
Hann nefnir sem dæmi að stór vindvirkjun þurfi að vera í kerfi þar sem aðrar virkjanir eða raforkugeymslur séu í bakhendi, þar sem hluti spaðans hreyfist nánast ekkert hluta úr árinu. Aðeins vatnsaflsvirkjun komi þar til greina vegna þess að jarðvarmavirkjanir vinni alltaf á sama hraða.
„Ég er ekki mótfallinn vindorkuverum, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki aðra vel reynda kosti. Við getum ekki endalaust kreist úr vatnsaflinu, langt í frá, og jarðvarmavirkjanir eru brenndar því marki að þú verður að fara mjög hægt í að virkja,“ segir hann. Auk þess byggi sjálfbærni á umhverfisvernd og náttúruvernd og finna Þurfi jafnvægi á milli hennar og náttúrunytja.
Ekki gengur að ákvarða fyrirfram hver virkjanahlutföllin eiga að vera, bætir hann við.
Hann nefnir að fyrstu vindorkuverkin séu inni í rammaáætlun sem liggi fyrir Alþingi sem verður að afgreiða hana með einhverjum hætti. „Annað hvort hættum við við rammaáætlun og finnum þá einhverja aðra leið að stýringu orkuöflunar eða við nýtum okkur áætlunina.“
Spurður hvort hægt sé að tvöfalda orkunotkun fyrir árið 2040 svarar hann því játandi. Það sýni heildarorkutölurnar í þriðja áfanga rammaáætlunar sem feli í sér 60 til 70 prósenta aukningu á raforkuframleiðslu. Við það megi bæta frekari vindorku og jarðvarma. Spurningin sé einfaldlega hvort Íslendingar vilji það. Hvorki skýrslan né hann sjálfur taki afstöðu til þess.
„Það eru engar einfaldar formúlur í þessu en það er mjög mikilvægt að ríkisstjórn, sveitarstjórnarmenn, alþingismenn, fyrirtæki og almenningur, bara allir sem koma að þessum orkuskiptum, noti þessa skýrslu, því hún er sneisafull af stöðuupplýsingum,“ segir Ari Trausti og ítrekar að engin niðurstaða sé í henni eða stefnumótun.
Þar sé einfaldlega að finna staðreyndir ásamt sex mögulegum sviðsmyndum. Í lok hvers kafla séu dregin saman álitamál og ákvarðanaverkefni og því sé „hent út í samfélagið“ svo að það geti tekið upplýsta afstöðu.