Lífeyrissjóður verzlunarmanna ætlar að auka lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga um 7% á árinu og kemur sú hækkun til viðbótar 10% hækkun sem ákveðin var í nóvember sl.
Segir í tilkynningu frá lífeyrissjóðnum, að þessar breytingar feli það í sér að áunnin lífeyrisréttindi 65 ára og eldri muni haustið 2022 hafa hækkað samtals um 17,9% miðað við árslok 2020.
Lífeyrissjóðurinn segir að sterk staða geri þetta mögulegt. Eignir sjóðsins jukust um 188 milljarða króna á árinu, þar af voru tekjur af fjárfestingum 174 milljarðar og var raunávöxtun hans 11,5%. Heildareignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna voru 1.201 milljarður króna í lok síðasta árs og greiddu 48 þúsund sjóðfélaga iðgjöld til sjóðsins.
Þá verður upphafsaldur lífeyris heimilaður frá 60 ára aldri í stað 65 ára. Segir sjóðurinn að þannig sé sveigjanleiki til töku lífeyris aukinn fyrir sjóðfélaga. Þá feli breytingarnar einnig í sér að lágmarksréttur til makalífeyris sem áður var 36 mánuðir, verður nú þannig að við bætist hálfur makalífeyrir í 24 mánuði til viðbótar.