„Sef með skófluna upp í"

Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum er á kafi í snjó
Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum er á kafi í snjó Ljósmynd: Heiðrún Ólafsdóttir

Margir eru orðnir langþreyttir á miklum snjó þennan veturinn en Heiðrún Ólafsdóttir, skálavörður í Landmannalaugum, tekur tíðinni með stóískri ró.

Heiðrún er ein á svæðinu en snjóþunginn er mun meiri en gengur og gerist í byggð eins og sjá má á myndunum frá henni. Hún hefur aldrei séð eins mikinn snjó í Landmannalaugum og þarf daglega að moka sér leið á milli húsa.

Vetrarríki við Landmannalaugar
Vetrarríki við Landmannalaugar Ljósmynd: Heiðrún Ólafsdóttir

Sefur með skófluna upp í

„Ég sef með skófluna upp í, ef það er þannig veður,“ segir Heiðrún í viðtali við mbl.is og hlær. Hún kemst inn í skálann í gegnum litla holu en fyrsta verk dagsins er alltaf að finna aðrar flóttaleiðir öryggisins vegna, en þær eru þrjár eins og er.

Fyrir skömmu ætlaði Heiðrún að fá sér kaffibolla eftir að hafa grafið sig inn í húsið, en þurfti fyrst að grafa í klukkutíma í viðbót til að geta skrúfað frá gasinu svo að uppáhellingin myndi takast.

Holan sem Heiðrún þarf að skríða í gegn um.
Holan sem Heiðrún þarf að skríða í gegn um. Ljósmynd: Heiðrún Ólafsdóttir

„Það er skammt stórra högga á milli,“ segir Heiðrún á meðan hún drekkur kaffið sitt úti í veðurblíðunni en í gær var rok og slydda og „ekki hundi út sigandi“ eins og kemur fram í frétt Ferðafélags Íslands.

Nóg að gera

Þó það sé ekki alltaf annað fólk á svæðinu hefur Heiðrún ætíð nóg að gera við að undirbúa komu næstu gesta, sem flestir koma um helgar. Í febrúar eykst straumur fólks að skálanum, ef færð leyfir, en ásamt þeim sem gista kemur einnig fólk í dagsferðum í laugina. Stærri hópar koma frekar um helgar.

Mjög snjóþungt er í Landmannalaugum.
Mjög snjóþungt er í Landmannalaugum. Ljósmynd: Heiðrún Ólafsdóttir

Heiðrún hefur ekki áhyggjur af einangruninni og tekur verkefnum sínum með mikilli yfirvegun.

Vatnslaust er eins og er en það tekur tíma að bræða snjó fyrir vatn til að elda. „Ég er í lága drifinu hérna, það tekur allt góðan tíma og er mikil núvitund.“

Heiðrún lætur ekki snjóinn draga sig niður.
Heiðrún lætur ekki snjóinn draga sig niður. Ljósmynd: Heiðrún Ólafsdóttir

Þegar Heiðrún hefur lokið dagsverkunum les hún gjarnan en ætlar sér að læra á Ukulele í þessari ferð og vonast hún til þess að ná að læra The House of the Rising Sun áður en hún fer næst til byggða. Einnig nýtir hún gjarnan snjóinn og fer á gönguskíði.

Heiðrún hvetur að lokum fólk til að drífa sig upp í bíl og koma strax, enda sé veðrið gott að Fjallabaki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert