„Staðan er ennþá þung hjá okkur“

mbl.is/Jón Pétur

„Staðan er ennþá þung hjá okkur, enda faraldurinn orðin svo ofboðslega útbreiddur,“ segir Hildur Helgadóttir formaður farsóttanefndar á Landspítalanum. „Það sem við erum að sjá mest núna er fólk á sextugsaldri og eldra og flestir með undirliggjandi sjúkdóma og mikilvægt að fólk í áhættuhópum fari varlega. Fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem smitast er oft að veikjast mjög alvarlega, því covid gerir ekkert betra.“ Hildur segir að langstærsti hópurinn sem sé hjá þeim sé yfir sextugu, en þó sé það ekki altækt.

„Við höfum verið með mikið af börnum líka og í febrúar vorum við flesta daga með 1-2 börn inni,“ segir hún og bætir við að helsta ástæða innlagnar á börnum sé lungnabólga í kjölfar covid smits, en ekki undirliggjandi sjúkdómar. „En það er samt mikilvægt að taka fram að langflest börn verða lítið veik og í dag er ekkert barn hjá okkur.“

 Almennt vægari einkenni

 Hún segir að almennt séu einkenni veirunnar mun vægari en þau hafa verið í fyrri bylgjum. „En núna leggjast þau á þetta fólk sem hélt sig mjög til hlés í sjálfskipaðri sóttkví í fyrri bylgjum og það getur valdið versnun á ástandi þeirra. Covid gerir ekkert betra.“

Hildur segir að eldra fólk sem sé fullbólusett fari yfirleitt vel út úr sýkingu, „en faraldurinn er svo ofboðslega útbreiddur að það verður alltaf einhver hópur sem verður meira veikur en aðrir.“

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Mikið álag á Norðurlandi

„Það er búið að vera mikið álag á Sjúkrahúsinu á Akureyri undanfarna daga og núna eru tólf sjúklingar á spítalanum vegna covid,“ segir Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri sjúkrahússins. Hann bætir við að undanfarnar vikur hafi að meðaltali verið 10-12 smitaðir á spítalanum og stærsti hópurinn er yfir sjötugu. „Miðað við stærðarmun bæjarfélaga, væri þetta eins og það væru 100 manns inni á Landsspítalanum,“ segir hann. „Síðan hefur starfsfólk líka verið að veikjast og á hverjum degi er u.þ.b. 10-12% veikt svo það hefur verið virkileg áskorun að manna grunnþjónustuna og bráðaþjónustu. Við höfum þurft að flytja fólk á milli eininga og fresta verkefnum sem geta beðið til að nýta starfsfólkið.“

Vandamál allrar heilbrigðisþjónustunnar

Hann segir að staðan víða um land sé þung. „Þetta er komið inn á hjúkrunarheimilin og öldrunarheimilin og það eru miklar áskoranir um allt land. Þetta er vandamál allrar heilbrigðisþjónustunnar, ekki bara Landspítalans, en enn einu sinni hefur starfsfólk spítalanna snúið bökum saman þótt það sé orðið lúið eftir tveggja ára baráttu.“

Sjálfur hefur Sigurður ekki sloppið við veiruna og er heima og reynir að sinna störfum eftir megni í gegnum síma og tölvu. „Síðustu dagar hafa verið ansi snúnir og fyrstu tvo dagana fór röddin. Þetta er leiðindapest, en maður gerir bara sitt besta.“

Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupsstað.
Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupsstað. mbl.is/Sigurður Bogi

Aukin smit á Austurlandi

„Þessi bylgja hefur verið að koma hart niður á okkur hér á Austurlandi,“ segir Heimir Pétursson umdæmislæknir sóttvarna héraðsins. „Á mánudag voru tekin 490 sýni og 160 á þriðjudag og a þessum 650 sýnum voru 66% jákvæð, eða 330 manns.“ Hann segir að frá því um miðja síðustu viku hafi verið að greinast nálægt 100 manns á dag. „Í tíu þúsund manna samfélagi er það ansi stór hluti.“

Farið yfir fjallið til að redda næstu vakt

Álagið á heilbrigðiskerfinu er mikið, en 11 starfsstöðvar eru í héraðinu. „Undanfarið höfum við verið að manna vaktlínur í heilbrigðisstofnuninni frá degi til dags, en núna má segja að það sé klukkustundarspursmál að manna vaktir, og ótrúlegt hvað fólk hér er tilbúið að hjálpa og taka vaktir á öðrum starfsstöðvum. Þá er farið yfir dalinn eða fjallið til að redda næstu vakt. Svo hefur þessi vetur líka sett strik í reikninginn vegna ófærðar og veðurs. Við höfum sótt sýnatökufólk fast í sköflum uppi á heiði og orðið af aflýsa sýnatökum og bólusetningum vegna veðurs, en samstillt átak og dugnaður starfsfólks hefur leyst þessa áskorun.“

Á Neskaupstað er núna einn smitaður einstaklingur á Heilbrigðisstofnun Austurlands, en þá ber að geta að þeir sem alvarlegast veikjast er farið með til Akureyrar eða suður á Landspítala. Á Austurlandi eru fimm hjúkrunarheimili og þar eru nú smit á þremur heimilum og í hópi starfsfólks eru smit á tveimur heimilanna.  Heimir segir að sem betur fer séu alvarleg veikindi ekki algeng vegna veirunnar. „En það má segja að í samfélaginu hérna séu allir að smitast, þótt einkenni séu mismikil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert