Átakanlegt að hlusta á sögur flóttafólksins

Brynja heimsótti flóttamannabúðir á landamærum Slóvakíu og Úkraínu á sunnudaginn …
Brynja heimsótti flóttamannabúðir á landamærum Slóvakíu og Úkraínu á sunnudaginn en hún og skólafélagar hennar hafa staðið fyrir söfnun fyrir fólk sem hefur þurft að flýja Úkraínu eftir innrás Rússa.

„Þetta var ótrúleg sjón og mjög erfið upplifun. Mér fannst satt best að segja magnað hvað allt var vel skipulagt þarna,“ segir Brynja Aradóttir, dýralæknanemi í Slóvakíu. Brynja heimsótti flóttamannabúðir á landamærum Slóvakíu og Úkraínu á sunnudaginn en hún og skólafélagar hennar hafa staðið fyrir söfnun fyrir fólk sem hefur þurft að flýja Úkraínu eftir innrás Rússa.

Mörg þúsund manns eru í umræddum flóttamannabúðum en ekki staldra allir lengi við. Sumir nota þær aðeins sem vörðu á leið sinni annað.

„Í búðunum voru margir flóttamenn, sumir stoppa á landamærunum í nokkra daga meðan verið er finna samastað fyrir þá en aðrir stoppa stutt og halda áfram inn í landið. Ég náði tali af nokkrum þeirra, sem sögðu mér frá ferðalögum sínum, það var átakanlegt að heyra sögur þeirra. Þau höfðu ýmist keyrt eða gengið í þó nokkra daga og jafnvel án matar og drykkjar á leiðinni. Þetta var yfirþyrmandi og erfið upplifun,“ segir Brynja. „Það er þó augljóslega verið að hugsa vel um flóttamennina þarna og ég var þakklát að sjá það,“ segir hún enn fremur.

Um 25 íslenskir dýralæknanemar eru í Slóvakíu. Brynja býr skammt frá landamærunum og fannst þeim ómögulegt annað en að taka þátt í að aðstoða þá sem eiga um sárt að binda nú.

Hægt er að fylgjast með söfnuninni á Facebook (Söfnun fyrir flóttamenn frá Úkraínu) og þeir sem vilja leggja henni lið geta lagt inn á reikninginn 0123-15-016142, kennitala 220693-4149 eða notast við Aur: 777-6558.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert