„Hvernig verður farið að því að tryggja næga orkuframleiðslu á Íslandi næstu árin?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi þar sem hann beindi spurningu sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Hann benti á skýrslu þar sem fram kemur að auka þurfi orkuframleiðslu um 125%, m.a. til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um orkuskipti.
„Nú bið ég um tiltölulega einfalt og skýrt svar, ekki erindi — eins skemmtileg og þau geta nú verið frá hæstvirtum ráðherra eins og við heyrum stundum hér en ættu betur heima á flokksfundi hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði — heldur skýr svör til Alþingis. Hvernig sér hæstvirtur forsætisráðherra fyrir sér að hægt verði að auka orkuframleiðslu á Íslandi eins og þörf er fyrir?“
Katrín sagði að fyrir henni færi það saman að ná loftslagsmarkmiðum og vernda náttúruna. Þess vegna hefði hún talað fyrir því að horft væri til fjölbreyttra kosta þegar komi að virkjunum.
„Síðan vil ég nefna það í tengslum við skýrsluna þar sem settar eru fram sex sviðsmyndir að ég tel að það kalli á að stjórnmálin ræði það í hvað við viljum nýta orkuna. Vissulega er það svo að ég tel að við eigum að nýta þessa orku í orkuskipti hér á landi. Mér finnst það vera forgangsmál okkar en það eru ýmsar aðrar hugmyndir sem háttvirtur þingmaður þekkir vel um útflutning á orku og annað slíkt. Forgangsmálið á að vera að mínu viti orkuskipti hér innan lands,“ sagði forsætisráðherra.
Hún sagði fulla ástæða til að ræða í hvað stæði til að nýta orkuna því ekki væri um ótakmörkuð gæði að ræða.
„Mín sýn er þess vegna sú að það eigi að vera þessi skýra forgangsröðun til innlendra orkuskipta því að ég tel að vernd náttúru og loftslagsjónarmið verði að fara saman hér og það finnst mér mikilvægt.“