„...en þeir keyra um á Porsche“

Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs á von á góðum gesti …
Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs á von á góðum gesti til landsins sem mun verja helginni með íslenskum tónlistarhöfundum með tengingar við K-pop-tónlistarmarkaðinn í Suður-Kóreu í huga. Ljósmynd/Ragnheiður Arngrímsdóttir

„Þetta er þannig til komið að markmið STEFs er alltaf að auka tekjur okkar höfunda,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögfræðingur og framkvæmdastjóri þess sem eitt sinn hét Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar, en ber nú einfaldlega hið stutta og laggóða heiti STEF. Umræðuefnið er svokallaðar lagasmíðabúðir sem STEF stendur fyrir um helgina og hefjast raunar í kvöld með kynningarfundi um fyrirbærið „K-pop“, tónlistarstefnu, sem á rætur sínar að rekja til Suður-Kóreu, en markmið búðanna er öðrum þræði að stinga íslenskum lagasmiðum og upptökustjórum í samband við hinn víðfeðma tónlistarmarkað Asíu.

„Það sem einkennir svolítið íslenska tónlistarmarkaðinn er að hér höfum við aldrei haft almennilega tónlistarforleggjara starfandi, hreinlega vegna þess að íslenskur markaður hefur alltaf verið svo lítill að hann hefur ekki borið slíkt,“ heldur Guðrún Björk áfram og bendir á að nú sé öldin önnur en þegar Gaukur bjó á Stöng, rafræn veröld bjóði upp á mun auðveldari tengsl tónsmíðenda við erlenda tónlistarforleggjara og áður fjarlægir markaðir liggi nú nánast í túninu heima.

Einn stærsti tónlistarmarkaður heims

„Núna er ég að tala um tónhöfunda, ekki flytjendur. Þetta snýst meðal annars um það að koma tónlist í sjónvarpsverkefni og kvikmyndaverkefni, en ekki síður um að koma henni til erlendra flytjenda,“ útskýrir framkvæmdastjórinn. Einn margra liða í þessari tónsmíðaútrás sé að bjóða erlendum tónlistarforleggjurum til Íslands til fundar við íslensk tónskáld, en í því augnamiði hafa aðstandendur lagasmíðabúðanna boðað til landsins Norðmanninn Robin Jenssen, forstjóra tónlistarforlagsins EKKO Music Rights Europe, sem á sér höfuðstöðvar í Stokkhólmi í Svíþjóð.

Hildur Kristín Stefánsdóttir tónlistarkona sækir búðirnar um helgina og hefur enn fremur víðtæka reynslu af slíkum búðum víða um heim.

Jenssen þessi og fyrirtæki hans vinna að því hörðum höndum að koma skandinavískri tónlist á framfæri í Asíu, ekki síst Suður-Kóreu, sem skartar einum stærsta tónlistarmarkaði heims. Guðrún Björk rakst á viðtal við Jenssen í tónlistartímariti, sem kveikti áhuga hennar. „Hann orðaði það svo skemmtilega í þessu viðtali, að höfundarnir, sem ynnu hjá honum, væru kannski ekkert að vinna listrænustu vinnuna, „en þeir keyra um á Porsche“, og ég hugsaði með mér að það væri nú gaman ef einhverjir íslenskir lagahöfundar gætu nú kannski keypt sér Porsche,“ segir Guðrún Björk og hlær við.

Frá vinnubúðum STEFs og ÚTÓN, Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar, árið 2019. …
Frá vinnubúðum STEFs og ÚTÓN, Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar, árið 2019. Guðrún Björk bendir á að íslenskur höfundur, sem tekur upp samstarf við annan norskan, margfaldi með því stærð síns markaðssvæðis. Til mikils gæti því verið að vinna með strandhöggi í hinum gríðarstóra suðurkóreska tónlistarmarkaði. Ljósmynd/Aðsend

Hún hefði því gengið til viðræðna við Norðmanninn með íslenskar lagasmíðabúðir fyrir augum, einmitt um það leyti, sem óveðursský kórónuveirunnar tóku að hrannast upp við sjónarrönd. Því séu búðirnar um helgina fjórða tímasetningin, sem lagt var í, og nú virðist allt í lukkunnar velstandi, Jenssen mætir og með honum þrír af lagahöfundum EKKO. „Mannskapnum verður svo skipt í hópa og unnið yfir langa helgi og vonandi kemur út úr því tónlist, sem hentar fyrirtækinu og Jenssen getur svo farið með áfram og kynnt í Asíu,“ segir Guðrún Björk.

Stærsti viðburður af þessu tagi á vegum STEFs

Í þessu ferli felist meðal annars að finna suðurkóreska tónlistarflytjendur auk textahöfunda, sem fá það verðuga verkefni að þýða texta úr lagasmíðabúðum hérlendis yfir á kóresku og í framhaldinu verði spennandi að sjá hvað komi upp úr hinum gríðarstóra tónlistargrautarpotti Suður-Kóreu, sem nú þegar hefur getið af sér fjölda heimsfrægra flytjenda. „Þannig að við erum svona að prófa þetta og sjá hvort við getum búið til einhverjar tengingar og hvort unnt sé að koma íslenskri tónlist út á þennan stóra markað,“ útskýrir Guðrún Björk af smitandi áhuga.

Hún tekur það fram að kynningarfundurinn í kvöld, sem hefst klukkan 18 á Laufásvegi 40, sé öllum opinn, fólk þurfi aðeins að senda póst og skrá sig svo sóttvörnum megi halda í besta horfi, en um þetta má fræðast nánar á Facebook-síðu viðburðarins, „K-Pop > Kynningarfundur“.

Þungavigtarmenn í bransanum, suðurkóreska K-pop-sveitin BTS, eða Bangtan Sonyeondan, reyndar …
Þungavigtarmenn í bransanum, suðurkóreska K-pop-sveitin BTS, eða Bangtan Sonyeondan, reyndar einnig þjóðkunnir þar eystra undir nöfnunum Beyond The Scene, Bullet Proof Boys og Bulletproof Boy Scout. Sjálfir skreyta liðsmenn sig sviðsnöfnunum RM, Jin, Suga, J-Hope, Jimin, V og Jungkook. Ljósmynd/Wikipedia.org/Dispatch

Skyldu lagasmíðabúðirnar vera dæmigert verkefni í verkahring STEFs, eða er Guðrún Björk einfaldlega svo frjó í hugsun sinni að svífa út fyrir alla ramma? „Já og nei, þetta er stærsti viðburðurinn af þessu tagi, sem við höfum komið að, en áður höfum við haft ýmsa milligöngu í tengslum við lagasmíðabúðir og styrkt okkar félaga til að taka þátt í slíku,“ svarar framkvæmdastjórinn um hæl og tekur einfalt dæmi. „Segjum bara að íslenskur og norskur höfundur starfi saman, þá er íslenski höfundurinn strax búinn að margfalda stærð síns markaðssvæðis, þetta er í raun einfaldasta leiðin til útrásar, að semja með fólki frá öðrum löndum, þá myndast strax tengingar við allt annan og stærri tónlistarmarkað. Þetta er ekkert síður áhrifaríkt en að fara og túra [fara í tónleikaferðalag] erlendis,“ segir hún.

Í ótal horn að líta

Blaðamaður freistast að lokum til að skyggnast örlítið inn á það svið, sem STEF, gallhörð réttindasamtök, eru kannski þekktust fyrir, brot gegn höfundarrétti, leiðinlegu hliðina á litríka draumaheiminum, sem tónlistin er mannfólkinu gjarnan gegnum einhverja grútarslydduna á þriðjudagsmorgni í febrúar.

„Starfið er auðvitað miklu víðtækara, en að innheimta fyrir opinberan flutning tónlistar og síðan að úthluta tekjunum til tónhöfunda  þótt það sé auðvitað aðalmálið. Okkar stærstu viðskiptavinir eru útvarp og sjónvarp og tónlistarveitur eins og Spotify og YouTube, en svo eru það líka verslanir, veitingastaðir, hárgreiðslu- og snyrtistofur, heilsuræktarstöðvar og allt slíkt,“ útskýrir Guðrún Björk, „við erum með samninga við nánast öll fyrirtæki, sem flytja tónlist í sinni starfsemi og svo höldum við utan um gagnagrunn með verkum okkar tónhöfunda, sem eru um 100.000 talsins,“ heldur hún áfram og vísar þar til fjölda tónsmíða þótt margt sé einnig í hópi listafólks, en 269 nýir félagar hafa gengið til liðs við STEF síðasta árið.

Reikna þurfi út hvað greiða beri rétthöfum og þá sé ótalin hagsmunagæsla félaga vegna hugsanlegra brota auk þess sem heimsfaraldurinn hafi haft sín áhrif, en af öllum atvinnugreinum hefur tónlistariðnaðurinn farið einna verst út úr faraldrinum, að sögn Guðrúnar Bjarkar, þar sem ekki var unnt að halda tónleika eða aðra viðburði þar sem tónlist er venjulega flutt. „Undanfarin ár hefur því mikil vinna farið í að benda á þessi áhrif og vinna því fylgi að bæta tónlistariðnaðinum sérstaklega sitt tap. Nýlega bar það þann árangur að nýr menningar- og viðskiptamálaráðherra tryggði tónhöfundum 150 milljóna króna framlag sem STEF mun úthluta,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs að lokum.

K-pop-kóngurinn frá Þrændalögum

„Tilgangurinn með búðunum í Reykjavík er að kveikja áhuga og innblástur, kenna og hlúa að sköpun og menningarskiptum,“ segir Robin Jenssen, forstjóri EKKO Music Rights Europe,
um lagasmíðabúðir íslenskra tónlistarhöfunda hér á landi um helgina. Jenssen rekur uppruna
sinn til Þrándheims í Noregi og er óhætt að segja að hann hafi marga fjöruna sopið við tónsmíðar síðan hann stofnaði lagahöfundateymið Dsign Music, sem hefur komið 39 lögum í toppsæti Billboard-vinsældalistans og átt tónlist á 35 milljónum seldra hljómplatna.

Robin Jenssen og tónsmíðateymi hans Dsign Music hafa sópað til …
Robin Jenssen og tónsmíðateymi hans Dsign Music hafa sópað til sín verðlaunum á sviði tónlistar og nánast haft toppsæti Billboard-vinsældalistans í áskrift um dagana. Ljósmynd/EKKO Music Rights Europe

Jenssen sjálfur hefur hlotið tugi verðlauna fyrir tónsmíðar og hleypti Trondheim Song: Expo af stokkunum árið 2011, stærstu lagasmíðabúðum Evrópu þar sem 100 höfundar koma saman í 15 hljóðverum ár hvert. „Við lifum krefjandi tíma þar sem faraldur hefur sett heiminn á hvolf í tvö ár,“ segir Jenssen í tölvupósti til Morgunblaðsins og er sammála Guðrúnu Björk um að veiran skæða hafi drjúgast drukkið tónlistargeirans blóð, mestallt samstarf hafi færst á rafrænt form í faraldrinum af augljósum ástæðum.

Nú sé því lag fyrir höfunda að stökkva tvíefldir fram á tónsviðið. „Nú brjótum við gamla múra og gefum öllum tækifæri til að koma sér á framfæri alþjóðlega,“ segir Jenssen og lítur björtum augum fram á veginn eftir þrautagönguna sem nú er að baki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert