Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, óskaði eftir svörum frá forseta Alþingis um „lögbrot Útlendingastofnunar í skjóli dómsmálaráðherra“, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.
Hún sagði stofnunina neita að afhenda þinginu gögn sem þingið þurfi á að halda og spurði hvernig forsetinn „hyggst bregðast við þessu valdaráni“.
Málið snýst um að þingið fá gögnin til að geta veitt fólki ríkisborgararétt.
Arndís Anna benti á að ágreiningur hafi verið uppi í lok desember um hvort stofnuninni bæri skylda til að afhenda þinginu göngin. Nú sé aftur á móti komið fram lögfræðiálit frá lagaskrifstofu þingsins um að stofnuninni beri að afhenda gögnin.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók undir með Arndísi Önnu og sagði súrrealíst að þingið fái ekki gögnin og Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, bætti við: „Það er verið að hindra þingið í því að geta sinnt sínu hlutverki sem er í þessu tilviki að veita fólki ríkisborgararétt með lögum.“
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, kvaðst ætla að ræða við allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis og dómsmálaráðherra „til að fylgja þessu eftir þannig að málið verði leyst“.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði býsna langt seilst í því að halda því fram að um sífelld lögbrot sé um að ræða hjá Útlendingastofnun í skjóli ráðherra.
Hún sagði stofnunina aldrei hafa sagst ekki ætla að afhenda gögnin og að henni sé fyllilega ljóst að henni beri að fara yfir umsóknirnar. Málið snúist um tíma, sem þó sé orðinn alltof langur núna.
Bryndís nefndi að stofnun sé búin að afhenda hluta af umsögnunum og að klára þurfi málið sem fyrst.
Hún hvatti Alþingi til að horfa til framtíðar hvað vinnubrögð í svona málum varðar. „Það þarf að allsherjar- og menntamálanefnd að leggjast yfir. Við þurfum að finna framtíðarfyrirkomulag sem er okkur öllum til sóma.“