Útbreiðsla Covid-19 er áfram gríðarlega mikil og hefur áhrif víða í samfélaginu þótt reglur um sóttkví og einangrun hafi verið felldar niður. Greiningum hefur ekki fjölgað frá því sem var meðan reglur um einangrun voru enn í gildi, en innlögnum á sjúkrahús hefur fjölgað verulega.
Þetta kemur fram í pistli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis þar sem hann fer yfir stöðuna í kórónuveirufaraldrinum. 77 sjúklingar liggj inni á Landspítalanum með kórónuveirusmit. Þar af eru fjórir á gjörgæslu og einn í öndunarvél.
Meðalaldur sjúklinganna er 70 ár. Af þessum 77 manns voru 36 ekki lagðir inn vegna Covid-19. Þeir eru færri sem lagðir voru inn vegna sjúkdómsins, eða alls 31.
Þórólfur segir í pistli sínum að hlutfall jákvæðra hraðprófa sem notuð eru til staðfestingar sé svipað og hlutfall jákvæðra PCR sýna áður, en vegna nokkuð lakara næmis hraðprófanna sé þetta vísbending um að útbreiðslan sé líklega meiri en áður.
„Embætti landlæknis tekur vikulega út stöðuna á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum landsins. Staðan hefur þyngst viku fyrir viku og ekki hefur verið meira álag vegna Covid-19 frá því að faraldurinn hófst fyrir tveimur árum. Það skýrist annars vegar af útbreiddu samfélagslegu smiti með útbreiddum veikindum og fjölda innlagna vegna Covid-19 og hins vegar mikils fjölda starfsmanna sem er frá vinnu vegna veikinda,“ skrifar Þórólfur.
Álag sé á öllum stofnunum, ekki síst Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri en einnig á Heilbrigðisstofnunum Vesturlands, Norðurlands og Austurlands auk margra hjúkrunarheimila. Starfsfólk og stjórnendur leggi mikið á sig til að geta sinnt nauðsynlegri heilbrigðisstarfsemi en staðan sé viðkvæm og lítið megi út af bregða.
„Mikilvægt er að við vinnum áfram saman að því að hefta útbreiðsluna eins og við getum þótt samfélagsaðgerðir stjórnvalda hafi verið felldar niður. Jafnvel þótt alvarleg veikindi komi fram hjá lægra hlutfalli en áður, m.a. vegna útbreiddra bólusetninga, þá geta alvarleg veikindi komið fram á öllum aldri og jafnvel hjá hraustum, bólusettum einstaklingum,“ skrifar Þórólfur sem hvetur fólk sem er með virkt smit að halda sig í einangrun og alla til að viðhafa persónubundnar sóttvarnir.