Nauðsynlegt að virkja meira

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ljóst að virkja þurfi meira til að ná markmiðum Íslands um orkuskipti og loftslagsmál. Hún telur það þó ekki merkja það að stjórnvöld hverfi frá því verkefni að vernda íslenska náttúru heldur þurfi að finna jafnvægi þar á milli.

Hún segir nú mikilvægt að forgangsraða nýtingu raforkunnar, enda sé græn orka ekki ótæmandi auðlind.

„Þar er mín sýn sú að við eigum að forgangsraða okkar orku í innlend orkuskipti. Það held ég að sé bæði mikilvægt fyrir íslenskan almenning og lífskjör hans og ég held – eins og atburðir í heiminum sýna – að það sé ákveðið öryggismál og fullveldismál að við séum öðrum óháð um orku,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Ljóst að það þurfi að virkja meira

Skýrsla starfs­hóps, sem Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra skipaði í byrj­un árs­ins til að fara yfir stöðu og áskor­an­ir Íslands í orku­mál­um, var kynnt í gær í Hörpu.

Þar voru settar fram sex sviðsmynd­ir um raf­orkuþörf lands­ins til næstu tveggja til fjög­urra ára­tuga, þar af fjór­ar sem taka mið af lofts­lags­mark­miðum Íslands. Þær spanna allt frá lít­illi sem engri viðbót við raf­orku­fram­leiðslu Íslands til ríf­lega tvö­föld­un­ar henn­ar eða 124% aukn­ing­ar fram til árs­ins 2040.

Spurð út í framtíð orkumála á Ísland segir Katrín það ljóst að virkja þurfi meira.

Ég held að það sem við tökum út úr þessu er að það þarf orku til að ráðast í orkuskiptin og orkuskiptin eru eitt af stóru málum þessarar ríkisstjórnar og við höfum þar mikil tækifæri til að verða óháð jarðefnaeldsneyti þannig að nú finnst mér það vera verkefni stjórnmálanna að vega og meta þá valkosti sem að eru fyrir hendi og þær leiðir sem eru fyrir hendi.“

Ekki sé bara horft til vatnsaflsvirkjana

Að sögn ráðherra er einnig mikilvægt að horft sé til fjölbreyttra valkosta þegar umræðan um virkjanir er tekin. 

„Þá held ég að sé mikilvægt að við hugsum ekki bara um vatnsaflsvirkjanir heldur líka til dæmis á vindorkuna og hvernig við getum til að mynda tengt saman nýtingu vindorku við þær vatnsaflsvirkjanir sem eru fyrir. Þannig að það í raun og veru tryggi þetta stöðuga framboð inn á kerfið okkar.“

Þá þurfi einnig að móta stefnu varðandi uppbyggingu vindorku út á hafi en auk þess segir hún fjölda annarra leiða standa til boðar eins og stækkun þeirra virkjana sem fyrir eru.

Halda fast í faglega ferla

Eitt af þeim vandamálum sem dregin voru fram í skýrslunni var skortur á almennri samstöðu um helstu áherslur í náttúruvernd og aðra umhverfistengda þætti þegar kemur að orkuframkvæmdum.

Spurð hvernig bæta megi úr þessu, segir Katrín mikilvægt að haldið sé fast í þann faglegan undirbúning á ákvarðanatökum sem hefur verið viðhafður við gerð rammaáætlana.

„Það hafa verið átök milli þeirra sem vilja nýta meira og vernda meira. Það er nú eiginlega ástæðan fyrir því að þessi mál hafa verið lögð fram. Það er alveg ljóst að það er ekkert einfalt mál en þetta er ég held ég það besta verkfæri sem við eigum.“

Hverfa ekki frá því að vernda náttúruna

Þrátt fyrir að Katrín segi það ljóst að virkja þurfi meira til þess að uppfylla markmið Íslands í orkuskipta- og loftslagsmálum, segir hún Íslendinga um leið ekki mega gleyma þeim verðmætum sem felast í ósnortinni náttúru. Enda séu líffræðilegur fjölbreytileiki og endurheimt vistkerfa einnig hluti af markmiðum okkar.

Hún vekur jafnframt athygli á því sem skýrsluhöfundar hafa lagt áherslu á sem er að gríðarlegar breytingar í tækniþróun séu að eiga sér stað og því gæti sú orkuþörf sem sviðsmyndir skýrslunnar byggjast á breyst á mjög skömmum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert