Borgarráð samþykkti í dag tillögu um að setja á stofn rannsóknarnefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem munu standa að heildstæðri athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins sem reknar voru í Reykjavík á síðustu öld.
Forsætisráðuneytið, í samráði við borgina, vinnur nú að lagafrumvarpi sem á að heimila nefndinni að útvega nauðsynlegar rannsóknarheimildir.
„Reykjavíkurborg hefur talið vera fullt tilefni til að koma á laggirnar nefnd til að rannsaka starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins þann tíma er þær voru starfræktar í Reykjavík.
Með samþykkt sinni í dag hefur verið lagður grunnur að starfsemi nefndarinnar. Unnið er að tilnefningum í nefndina og tekur hún til starfa um leið og þær liggja fyrir. Í forsætisráðuneytinu er jafnframt unnið að frumvarpi um nauðsynlegar lagaheimildir fyrir vinnu nefndarinnar en fram að því mun nefndin undirbúa úttektina,“ segir í tilkynningu borgarinnar.
Fyrir átta mánuðum gengu fimm menn, sem hafa verið í forsvari fyrir þá sem voru vistaðir á vöggustofunum sem börn, á fund borgarstjóra. Þar féllst Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kröfu þeirra um að rannsaka starfsemina sem þar fór fram en henni hefur verið lýst sem ómannúðlegri.
„Á Hlíðarenda og síðar Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins var skipulag starfseminnar vélrænt og örvun á vitsmuna- og tilfinningaþroska barnanna var ekki á dagskrá. Á honum voru þrír stórir gluggar og í gegnum þá var hægt að fylgjast með börnunum í berstrípuðum, sótthreinsuðum og upplýstum herbergjum.
Þar voru þau látin liggja í rimlarúmum án örvunar því starfsfólki var forboðið að snerta eða tala við þau að nauðsynjalausu,“ segir í greinargerð sem fimmmenningarnir lögðu fyrir borgarstjórn.
Samkvæmt ákvörðun borgarráðs í dag skulu markmið athugunarinnar og meginverkefni nefndarinnar vera eftirtalin: