Segir dylgjur Agnieszku tilhæfulausar

Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Hari

Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, segir í yfirlýsingu til fjölmiðla að Deloitte, sem fer með endurskoðun ársreikninga hjá Eflingu, geri engar athugasemdir við viðskipti Eflingar við vefhönnunarfyrirtækið Sigur vefstofu sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu daga.

Viðar segir að fráfarandi formaður Eflingar, Agnieszka Ewa Ziółkowska, hafa beðið um athugunina hjá Deloitte.

Segir Agnieszku hafa borið út róg um sig

Þá segir Viðar að Agnieszka hafa borið út róg um að hann sé ábyrgur fyrir einhvers konar fjármálamisferli í tengslum við viðskipti Eflingar við Sigur vefstofu í tíð sinni sem framkvæmdastjóri félagsins. Það hafi hún gert á fundi trúnaðarráðs Eflingar 16. febrúar að Viðari fjarstöddum. Þá hafi Agniezka neitað að veita lögmanni Viðars skýringar eða gögn til stuðnings ummælum sínum.

„Ónafngreindir einstaklingar settu sig í kjölfarið í samband við fjölmiðla og létu hafa eftir sér ummæli til þess gerð að málinu yrði slegið upp með tortryggilegum hætti gagnvart mér og mínum störfum,“ skrifar Viðar og bætir við að Halldóra Sveinsdóttir, þriðji varaforseti ASÍ, hafi í samtölum við fjölmiðla tekið undir með þessum órökstuddu ásökunum og talað um fjárdrátt og önnur ótilgreind lögbrot.

„Eftir athugun Deloitte liggur fyrir að dylgjur fráfarandi formanns Eflingar og þriðja varaforseta ASÍ eru með öllu tilhæfulausar,“ segir Viðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert