Sjúklingar bíða á sjúkrabörum vegna plássleysis

mbl.is/Kristinn Magnússon

Gríðarlegt álag hefur verið við sjúkraflutninga í dag og er bráðamóttakan yfirfull af sjúklingum. Þá eru dæmi þess að sjúklingar hafi þurft að bíða á sjúkrabörum vegna plássleysis inni á deildinni.

Frá þessu greindi Áslaug Birna Bergsveinsdóttir, slökkviliðs- og sjúkraflutningakona, í tísti í dag.

„Það er mikið að gera í sjúkraflutningum í dag og bráðamóttakan er STÖPPUÐ. Við þurfum ítrekað að bíða lengi með skjólstæðinga á börunum okkar því það eru engin laus pláss. Fólk liggur á göngunum um alla deild. Leitið frekar á heilsugæslu en slysó ef þið getið,“ sagði Áslaug.

Minnst þriggja klukkutíma bið eftir þjónustu

Hjalti Már Björnsson yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans tekur undir með Áslaugu í samtali við mbl.is og segir stöðuna á spítalanum öllum vera gríðarlega þunga.

„Það er mjög mikið álag vegna allra þeirra einstaklinga sem þurfa að liggja inni út af Covid, sem kemur til viðbótar við annað álag á spítalanum. Svo er mjög mikið um veikindafjarvistir starfsmanna spítalans.“

Á þessari stundu liggi nú 85 einstaklingar á bráðamóttökunni, sem hafi að skipa 28 rúmsstæði, að sögn Hjalta.

„Einstaklingar sem bíða eftir þjónustu eru 36 talsins og biðtíminn því miður kominn upp í þrjá klukkutíma núna.“

Hann segir það koma fyrir að sjúklingar þurfi að bíða á sjúkrabörum vegna skorts á rúmsstæðum inni á bráðamóttökunni. Þá sé einnig fjöldi sjúklinga sem liggi á göngum bráðamóttökunnar vegna plássleysis.

„Það er langt síðan það voru laus pláss á bráðamóttökunni og fyrirsjáanlegt að einhverjir muni þurfa að bíða lengi eftir þjónustu. Það starfsfólk sem er í vinnu mun þó gera sitt besta til að veita öllum þjónustu en henni verður forgangsraðað eftir bráðleika.“

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert verið gert til að reyna laga ástandið

Neyðarástand hefur verið í innlagnarmálum á Landspítalanum í hálfan áratug og hefur Covid-19 faraldurinn ekki verið ofan á það bætandi, að sögn Hjalta.

„Þetta vandamál er tilkomið vegna þess að legudeildarplássum var fækkað um þriðjung þrátt fyrir að þjóðin fari stækkandi og hún eldist. Aðeins hluti vandans skýrist af því gríðarlega álagi sem Covid-faraldurinn er að hafa á spítalann þessa dagana, sem kemur til viðbótar við fyrri vandræði sem hafa fengið að þróast á spítalanum yfir fjölda ára.“

Þrátt fyrir ítrekaðar og harðorðar viðvaranir starfsfólks bráðamóttökunnar, átakshópa á vegum heilbrigðisráðuneytisins og ályktanir landlæknis hefur í raun og veru ekkert verið gert til að leysa úr þessari stöðu.“

Þá segir Hjalti ljóst að Landspítalinn hafi ekki verið styrktur nægilega mikið til að takast á við þá „fyrirsjáanlegu“ bylgju af Covid-sýkingum sem dynji nú á þjóðinni.

Kveðst hann þó vongóður um að með tilkomu nýs heilbrigðisráðherra og forstjóra Landspítalans verði tekið almennilega á þessum málum svo hægt sé að tryggja slösuðum og bráðveikum þá þjónustu sem þeir nauðsynlega þurfa, hvort sem það er á bráðamóttökunni eða á öðrum deildum Landspítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert