Vitað er að Rússar hafa siglt nálægt sæstreng fjarskiptafyrirtæksins Farice hér á landi en íslensk stjórnvöld hafa ekki fengið vísbendingar um tilraunir til að eiga við hann eða valda skemmdum.
Þetta kemur fram svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra við fyrirspurn mbl.is.
Í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu hefur verið uppi umræða um að Rússar gætu átt við sæstrengi Farice á Íslandi. Strengurinn FARICE-1 er annar af tveimur fjarskiptasæstrengjum Farice sem tengja Ísland við Evrópu. Hann liggur frá Seyðisfirði til Skotlands. Hinn strengurinn nefnist DANICE.
Í þætti Kveiks í október var greint frá því að rússnesk herskip hafi varið níu dögum í íslenskri efnahagslögsögu í ágúst í fyrra, skammt frá sæstreng Farice að Íslandi. Rússar vildu ekki gera grein fyrir ferðum skipanna. Einnig kom fram að talsmenn NATO hafi um nokkurra ára skeið lýst þungum áhyggjum af því að Rússar hafi getu og vilja til að eiga við sæstrengi.
Spurð hvort hún hafi auknar áhyggjur af sæstrengjunum í ljósi innrásar Rússa svarar Þórdís Kolbrún: „Innrás Rússa í Úkraínu er án nokkurs vafa tilefni til þess að endurmeta fjölmargt í okkar öryggis- og varnarmálum, þar á meðal fjarskipta- og netöryggismálum.“
Innt eftir því hvort íslensk stjórnvöld hafi brugðist við á einhvern hátt út af þessu eða hvort það standi til segir hún eftirlit með sæstrengjum vera áskorun fyrir öll ríki. Þeir liggi þó djúpt á hafsbotni og afar erfitt sé að hafa eftirlit með allri skipaumferð um hafsvæði heimsins.
Hún segir eðli málsins samkvæmt afar erfitt að verja slík mannvirki algjörlega gagnvart öllum hugsanlegum ógnum, hvort sem þær eru af völdum manna eða náttúru.
Hverjar yrðu afleiðingarnar ef átt yrði við þessi mannvirki?
„Afleiðingar gætu verið rof á fjarskiptum sem fara fram í gegnum sæstrenginn. Slíkt gæti haft veruleg áhrif á netþjónustu og þar með daglegt líf ef skemmdir yrðu alvarlegar eða langvarandi,“ segir utanríkisráðherra.
Framkvæmdastjóri Farice vildi ekki tjá sig um málið þegar blaðamaður hafði sambandi við hann.