Aldrei hafa fleiri legið inni á Landspítala með Covid-19 en alls hafa 88 sjúklingar greinst með sjúkdóminn, þar af 26 sem bættust við hópinn í gær. Á landsvísu nær fjöldi covid-sýktra sjúklinga á sjúkrastofnunum hundrað.
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala segir ástandið endurspegla þá miklu smitdreifingu sem finna má innan samfélagsins. Hann segir stöðuna þunga og manneklu vega hvað mest í þeim efnum. Hann segir farsóttardeild ekki geta leyst úr þeim vanda enda væri ekki hægt að manna hana.
Samkvæmt upplýsingum sem Landspítalinn gefur út vikulega var 31 af þeim 77 Covid-sýktu sjúklingum sem lágu á spítalanum í gær, inni vegna sjúkdómseinkenna. 36 úr þessum hópi höfðu aftur á móti verið lögð inn vegna annarra ástæðna. Þá var ekki vitað um innlagnarástæðu 10 einstaklinga.
„Fólk er ýmist að koma inn veikt eða greinast á spítalanum, með lítil eða enginn einkenni. Birtingarmyndin er mjög breið, þetta er mjög frábrugðið því sem var í fyrstu bylgjunni þegar við vorum bara með einstaklinga sem voru með alvarleg veikindi vegna Covid-19. Núna er þetta misjafnt.
Við erum með fólk sem liggur inni út af öðrum vandamálum og er einkennalaust. Við erum með fólk sem er með Covid-19 í sinni verstu mynd, en þeir eru fáir. Svo erum við með fjölmarga aldraða einstaklinga sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eða hrumleika og þola ekki sýkinguna. Jafnvel þó að einkennin séu ekki alvarleg þá valda þau því að fólk missi færni og geti ekki spjarað sig heima í gegnum veikindin,“ segir Runólfur.
Runólfur segir mannekluna á spítalanum vegna veikinda starfsmanna enn vera stórt vandamál en þegar mest lét voru 15% starfsmanna frá.
„Það eru margir með Covid-19 en svo eru aðrar umgangssýkingar í gangi líka og veikindi af öðrum toga. En þetta er bara sama staða og er á heilbrigðisstofnunum út um allt land í rauninni. Þetta er birtingarmyndin af þessari Ómíkron-bylgju.“
Hann segir þó hafa gengið ótrúlega vel að glíma við stöðuna og þakkar hann frábæru framlagi starfsmanna.
„Fólk hefur lagt sig alveg gríðarlega fram og hefur náð að ráða við öll þessi viðfangsefni þrátt fyrir að það vanti mikinn fjölda starfsmanna sem eru í vinnu. Þess vegna hefur þetta gengið þrátt fyrir allt.“
Alþingi samþykkti nú í árslok fjárframlög til opnunar og reksturs farsóttardeildar á spítalanum. Þar yrði bæði legudeild og dag- og göngudeildarþjónusta en sú þjónusta sem veitt verður á farsóttardeild er nú þegar verið að veita á Covid-göngudeild og smitsjúkdómadeild.
Aðspurður segir Runólfur framkvæmdina í forgangi og verið sé að undirbúa opnun hennar.
„En stóri vandinn þarna – og það er ástæðan fyrir því að þetta tekur tíma, er að það er enginn aðstaða á spítalanum sem er vannýtt þannig að sú staðsetning innan spítalans í Fossvogi sem var ákveðinn fyrir þessa einingu hefur aðra starfsemi sem þarf að koma fyrir og það er bara heilmikið fyrirtæki að gera það,“ segir Runólfur.
„Hins vegar myndi þessi farsóttareining ekki leysa vandann eins og er vegna þess að þetta snýst fyrst og fremst um mannafla og starfsfólk. Eins og staðan er í dag þá gætum við ekki mannað hana. En hún er fengur inn í framtíðina.“
Hann segir erfitt að meta hvenær hægt verði að opna eininguna, þá aðallega í ljósi þess að erfitt er að koma fyrir þeirri starfsemi sem þarf að ryðja úr vegi fyrir hana. Áður hefur komið fram að húsnæðið sem er undir B1 deild Landspítalans þyki heppilegt undir farsóttardeildina, til dæmis með tilliti til einangrunar og aðgengis.
„En það er unnið hörðum höndum að finna lausnir á því.“