Kaupa orkuna á margföldu verði

Horft yfir Þórisvatn.
Horft yfir Þórisvatn.

Landsvirkjun notar öll úrræði sem fyrirtækið hefur til að eiga næga orku til að standa við skuldbindingar um afhendingu forgangsorku samkvæmt samningum, við þær erfiðu aðstæður sem slæm staða í vatnsbúskap á hálendingu skapar. Nú hefur verið virkjað ákvæði í samningum við stórnotendur um endurkaup raforku á margföldu því verði sem orkan var seld á. Snertir þetta aðeins eitt fyrirtæki en heiti þess fæst ekki upplýst vegna ákvæða um trúnað.

Landsvirkjun sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem fram kemur að yfirstandandi vatnsár sé eitt hið erfiðasta í sögu Landsvirkjunar. Sérstaklega er ástandið slæmt í Þórisvatni sem er mikilvægasta miðlunarlón fyrirtækisins á stærsta vinnslusvæði þess. Yfirborð Þórisvatns lækkar nú um einn metra á viku sem þýðir að verulega þarf að hlána í síðasta lagi um miðjan apríl, ef það á ekki að tæmast. Innrennsli í Tungnaá mælist nú minna en árið 2014, þegar síðast þurfi að grípa til skerðinga.

Fleira hefur sett strik í reikninginn í rekstrinum, meðal annars rof á byggðalínu og rof á orkuvinnslu í lok febrúar í stöðvunum í Vatnsfelli, á Sultartanga og í Búrfelli vegna illviðris.

Öll úrræði nýtt

Landsvirkjun greip til skerðinga vegna samninga um víkjandi orku við fiskimjölsverksmiðjur, stórnotendur og fjarvarmaveitur. Telur fyrirtækið ljóst að miðað við stöðuna nú muni þær skerðingar standa út aprílmánuð. Samtals nema þær um 3% af árlegri orkuvinnslu fyrirtækisins. Lætur nærri að það séu 400 gígawattstundir.

„Við erum í þessu erfiða vatnsári og notum öll tiltæk úrræði sem við höfum í okkar samningum,“ segir Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun. Hún segir að í síðasta mánuði hafi verið leitað til allra fyrirtækja á stórnotendamarkaði og lýst yfir áhuga á endurkaupum á raforku. Ekki hafi komið mikil viðbrögð við því. Í þessum mánuði hafi Landsvirkjun afnumið kaupskyldu sína í öllum samningum við önnur orkufyrirtæki á heildsölumarkaði. Það þýðir að þau þurfa ekki að kaupa alla þá orku sem þau hafa skuldbundið sig til að taka. Loks hafi verið virkjuð ákvæði í samningum við stórnotendur um endurkaup á forgangsorku. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert