Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp sem vinnur að því að greina hvernig þjónustu við einstaklinga með endómetríósu er nú háttað og gera tillögur um úrbætur. Mikilvægt er að stytta greiningartímann sem er nú að meðaltali 6-7 ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
„Sjúkdómurinn kemur gjarna fram fyrst á unglingsárunum – og mikilvægt er að stytta greiningartíma m.a. með því að auka þekkingu framlínustarfsfólks á sjúkdómnum, s.s. skólahjúkrunarfræðinga og heimilislækna; skýra hlutverk hvers þjónustustigs heilbrigðisþjónustu og boðleiðir þeirra í milli,“ segir í tilkynningunni.
„Þetta er markmiðið með þeirri vinnu sem nú stendur yfir og hún er mikilvæg, því hér er um sjúkdóm að ræða sem í mörgum tilvikum skerðir lífsgæði fólks verulega ef ekkert er að gert. Það var mikið framfaraskref þegar þverfaglegt endómetríósuteymi var sett á laggirnar hjá Landspítalanum 2017. Það er mikilvægt að styrkja það góða starf, ásamt því að setja í forgang að stytta biðlista og tryggja að þessi hópur fái aðstoð sem fyrst,“ er haft eftir Willumi Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra.
Að ósk heilbrigðisráðherra hefur Landspítali tekið saman upplýsingar um fjölda aðgerða vegna greiningar og meðferðar á endómetríósu (legslímuflakki) sem kalla ekki á sjúkrahúslegu og spítalinn telur unnt að útvista til annarra stofnana eða sjálfstætt starfandi sérfræðinga með þekkingu á sjúkdómnum.
Segir í tilkynningunni að hér á landi séu á hverjum tíma um 60-70 sjúklingar í virkri meðferð við endómetríósu á göngudeildum Landspítala.
„Í byrjun þessa árs biðu um 50 einstaklingar eftir fyrsta viðtali vegna endómetríósu á spítalanum og 22 biðu eftir aðgerð. Greining sjúkdómsins er oft erfið þar sem einkennin geta verið einstaklingsbundin og óljós. Því er greiningartíminn oft langur, eða að meðaltali 6-7 ár.“
Starfshópur skilar tillögum í apríl: Starfshópur skilar ráðherra í apríl niðurstöðum sínum um stöðu þjónustunnar ásamt tillögum til úrbóta, þar á meðal um bætta verkferla milli þjónustustiga. Starfshópurinn er skipaður með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins auk fulltrúa Samtaka um endómetríósu og sjálfstætt starfandi sérfræðinga.
Stefnt að útvistun aðgerða: Að mati Landspítala eru nú á fjórða tug aðgerða vegna greiningar á endómetríósu sem hægt væri að útvista til annars stigs þjónustu, sem eru aðrar heilbrigðisstofnanir og sjálfstætt starfandi sérfræðingar. Starfshópurinn mun fara nánar yfir málið og verði útvistunin talin fýsileg mun heilbrigðisráðuneytið tryggja Landspítala fjármagn sem gerir slíka útvistun mögulega.
Samningar við sjálfstætt starfandi sérfræðinga um greiningar og meðferð: Í framhaldi af vinnu starfshópsins mun heilbrigðisráðuneytið meta kosti þess að fela Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga við sjálfstætt starfandi sérfræðinga um kviðsjáraðgerðir til greininga og meðferða á endrómetríósu á grundvelli skilgreinds verklags.